Innlent

Skellt í lás í næstu viku á Skólavörðustígnum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Hegningarhúsið er sögulegt tákn aukinnar mannúðar í refsingum á Íslandi. Það var byggt í þeim tilgangi að hneppa mætti sakamenn í varðhald en á sama tíma voru aflagðar líkamlegar refsingar.
Hegningarhúsið er sögulegt tákn aukinnar mannúðar í refsingum á Íslandi. Það var byggt í þeim tilgangi að hneppa mætti sakamenn í varðhald en á sama tíma voru aflagðar líkamlegar refsingar.
„Síðustu fangarnir fara 1. júní og svo verður formleg lokun væntanlega 3. júní,“ segir Guðmundur Gíslason, forstöðumaður hjá Fangelsismálastofnun.

Í Hegningarhúsinu hafa fjórtán starfsmenn verið starfandi. „Það verður hlé á fangavörslu. Næstu daga eftir lokun munum við ganga frá í húsinu, við göngum ekki bara út þótt það séu ekki fangar,“ segir Guðmundur og bendir á að ganga þurfi frá persónugreinanlegum gögnum í samráði við Þjóðskjalasafn.

Eftir að gengið hefur verið frá húsinu munu starfsmennirnir flytjast yfir í fangelsið í Hólmsheiði og hljóta viðeigandi þjálfun til að starfa í nýja fangelsinu.

Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, segir Fangelsismálastofnun taka við húsinu á Hólmsheiði 10. júní en fyrstu fangarnir komi ekki í hús fyrr en allur öryggis­búnaður sé klár og starfsmenn búnir að læra á hann. Það verði líklega ekki fyrr en í haust.

„Fangar verða ekki fluttir í húsið fyrr en mitt starfsfólk gefur grænt ljós,“ segir hann. „Í sumar verður ákveðið millibilsástand en við höfum skipulagt okkur mjög vel. Það verður pláss fyrir fanga í öðrum fangelsum landsins og við höfum hagað boðunum þannig að það eru nær engir fangar boðaðir í fangelsi á þessu tímabili.“

Páll gerir ekki ráð fyrir að vandamál muni koma upp vegna lokunar Hegningarhússins. „Við þurfum bara að vera á tánum í sumar. Við erum vön því.“

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 26. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×