Innlent

Byggðu tveggja milljóna króna göngubrú í Kórnum sem Timberlake notaði einu sinni áður en hún var rifin

Birgir Olgeirsson skrifar
Justin Timberlake á tónleikum í Kórnum.
Justin Timberlake á tónleikum í Kórnum. Vísir/Andri
Byggja þurfti göngubrú fyrir tvær milljónir króna í Kórnum svo Justin Timberlake gæti farið á svið og til baka á öruggan hátt. Bandaríski tónlistarmaðurinn notaði þessa göngubrú aðeins einu sinni, en hún var rifin eftir tónleikana árið 2014.

Þetta kemur fram í máli Ísleifs Þórhallssonar, tónleika- og viðburðahaldara hjá Senu, í BS-ritgerð Kristjáns Jens Rúnarssonar sem nefnist Stækkun Laugardalsvallar en þar er reynt að svara því hvort það sé skynsamlegt fyrir Reykjavíkurborg að taka þátt í hugsanlegum breytingum á þjóðarleikvanginum.

Ísleifur Þórhallsson í Kórnum.Vísir/Vilhelm
Völlurinn of opinn fyrir vindi

Í ritgerðinni er farið yfir rökin fyrir stækkun Laugardalsvallar en Ísleifur bendir á að ein helsta ástæða þess að ekki séu haldnir stórtónleikar á Laugardalsvelli sé sú að völlurinn sé of opinn og hættan á of sterkum vindi sé of mikil til að unnt sé að taka þá áhættu.

Hann segist aðspurður myndi fagna nýjum leikvangi með tilliti til tónleikahalds. Sena hafi nú þegar látið sér koma það til hugar að halda þar stórtónleika en það hafi ekki verið gert þar sem ekki hafi náðst samningar við listamenn að koma í þeim glugga sem til boða stendur að halda útitónleika á Íslandi. Sena hefur látið framkvæma fyrir sig veðurfarsskýrslu fyrir Laugardalsvöll og þar komi fram að hagstæðasti tíminn til tónleikahalds sé frá byrjun júní mánaðar til loka ágúst. Á öðrum tímum sé veðurfar of óstöðugt til að hægt sé að halda útitónleika.

Reiknað er með að Laugardalsvöllur myndi taka á bilinu tuttugu til þrjátíu þúsund manns á tónleika eins og hann er núna og telur Ísleifur það nokkuð langsótt að ná að landa þannig stjörnur til að selja svo mikið af miðum akkúrat á því tímabili þar sem er óhætt að halda útitónleika á Íslandi.

„Svo er það bara rifið“

Þegar umræðan beinist að Kórnum og hvernig Sena hefur nýtt það íþróttahús fyrir stórtónleika með stórstjörnum á borð við Justin Timberlake og síðar Justin Bieber, en þessari BS-ritgerð var skilað inn fyrir apríl á þessu ári, nefnir Ísleifur að það sem sé alltaf erfitt við tónleikahald á Íslandi að menn þurfi ávallt að byrja frá grunni.

„Við þurftum að byggja göngubrú í Kórnum svo að Timberlake gæti labbað einu sinni back stage og yfir og til baka og það kostaði tvær milljónir.“Vísir/Andri
„Þú veist, þú kemur bara að einhverju húsi og það er íþróttahús og þú verður að breyta því í tónleikastað og það er svo gríðarlegur kostnaður sem því fylgir og af því að það gerist svo sjaldan, það eru svo sjaldan haldnir tíu þúsund manna tónleikar og ennþá sjaldnar haldnir þú veist átján þúsund manna tónleikar þá náttúrulega er ekkert til staðar þegar þú kemur,“ segir Ísleifur og nefnir göngubrúna máli sínu til stuðnings.

„Þú veist, við þurftum að byggja göngubrú í Kórnum svo að Timberlake gæti labbað einu sinni back stage og yfir og til baka og það kostaði tvær milljónir. Og svo er það bara rifið. En það er engin önnur leið til að koma honum yfir á öruggan hátt þeir samþykkja ekkert annað en þú veist, hérna alvöru gang og hann þarf að vera traustur og það má enginn sjá hann og það þarf að vera gæsla. Það þurfti að fara yfir hérna brunaútganga og það þurfti að vera samþykktur að öllum stofnunum á Íslandi og allt þetta kjaftæði. Og það hérna er bara engin önnur leið til að koma honum frá back stage og yfir þannig að við þurftum bara að byggja brú sem kostaði tvær milljónir sem var notuð einu sinni til að labba yfir og til baka.“

Hann segir að tónleikahald á þessari stærðargráðu væri mun auðveldara en til væri aðstaða sem væri hönnuð með slíkt í huga.

Reykjavík selji KSÍ völlinn

Niðurstaða BS-ritgerðarinnar er sú að þótt vissulega sé þörf fyrir fjölgun áhorfendasæta á Laugardalsvelli, þá liggur það ekki fyrir að sé hagkvæmt og skynsamlegt fyrir Reykjavíkurborgar að taka þátt í slíkum breytingum sem eigandi vallarins.

Það er mat Kristjáns Jens að að Reykjavíkurborg ætti þess í stað að skoða að selja Knattspyrnusambandi Íslands völlinn, sem síðan myndi finna einkaaðila með sér í breytingarnar.

„Þar með myndu fjárhagslegar skuldbindingar Reykjavíkurborgar gagnvart Laugardalsvelli hverfa og hægt væri að nýta þá fjármuni sem sparast annars staðar í borginni.“

Lesa ritgerðina í heild hér.


Tengdar fréttir

Nýtt útlit þjóðarleikvangsins

Í tillögum Yrkis arkitekta, sem kynntar voru í borgarráði í síðustu viku, er sýnt nýtt útlit Laugardalsvallar. Á teikningunum er gert ráð fyrir að völlurinn rúmi 25.600 áhorfendur auk hótels og skóla meðal annars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×