Dana White, forseti UFC, hefur drepið alla orðróma um að Ronda Rousey snúi aftur á UFC 205 í New York.
Síðustu daga hefur sá orðrómur verið í gangi að Ronda muni berjast það merkilega kvöld enda í fyrsta skipti sem UFC-kvöld fer fram í New York.
Áður var búið að útiloka að hún gæti barist þar til í janúar og það virðist standa.
„Það er ekki möguleiki á því að hún berjist í New York,“ sagði White. „Ég er að byrja á því að setja saman bardagakvöldið í þessari viku.“
Ronda hefur ekki stigið inn í búrið síðan hún var rotuð af Holly Holm í nóvember í fyrra.
Fastlega er gert ráð fyrir því að Conor McGregor verði í aðalbardaga kvöldsins í New York.
Þá annað hvort í fjaðurvigtinni þar sem hann mun berjast við Jose Aldo eða að hann berjist um titilinn í léttvigtinni gegn Eddie Alvarez.

