Handbolti

Einar Andri: Stórkostlegur leikur

Ingvi Þór Sæmundsson í Schenker-höllinni skrifar
Einar Andri og lærisveinar hans eru einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum.
Einar Andri og lærisveinar hans eru einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum. vísir/anton
„Þessi fer á topp þrjú. Við vorum í svakalegum leikjum í úrslitakeppninni í fyrra en þetta var stórkostlegur leikur tveggja frábærra liða,“ sagði alsæll Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir sigurinn ótrúlega á Haukum í dag.

Leikurinn var mögnuð skemmtun og ótrúlega sveiflukenndur. En hvað skilaði sigrinum að lokum að mati Einars Andra?

„Það eru frasar sem maður grípur í, við sýndum hjarta og hungur sem skilaði þessu. Leikurinn var eiginlega tapaður undir lok venjulegs leiktíma en menn hafa farið áður í gegnum þetta, að ná upp forystu, og við trúðum að við gætum gert það,“ sagði þjálfarinn.

Afturelding var í miklum vandræðum með Adam Hauk Baumruk sem skoraði 15 mörk í leiknum.

„Við þurfum að fara vel yfir þetta. Hann fór illa með okkur og var frábær. Við viljum halda okkar áherslum í vörninni og breyttum aðeins í leiknum en það gekk ekki vel,“ sagði Einar Andri sem var mjög ánægður með sóknarleik Mosfellinga í dag.

„Hann var stórkostlegur, bæði á móti 6-0 vörn og þegar þeir tóku Mikk [Pinnonen] úr umferð.“

Afturelding getur tryggt Íslandsmeistaratitilinn í annað sinn í sögu félagsins með sigri í fjórða leiknum gegn Haukum á mánudaginn. Þrátt fyrir tvær framlengingar í dag segir Einar Andri að hans menn eigi nóg eftir fyrir fjórða leikinn.

„Við erum búnir að æfa frábærlega í allan vetur og alveg frá því við töpuðum þriðja leiknum á móti Haukum í úrslitunum í fyrra. Við eigum nóg af mönnum,“ sagði Einar Andri að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×