Karlmaður var dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands eystra í vikunni fyrir ólögmæta nauðung. Þar af eru tólf mánuðir skilorðsbundnir.
Brot mannsins fólst í því að villa á sér heimildir á samskiptamiðlinum Snapchat og hefja samskipti við fimmtán ára dreng. Hann fékk drenginn til að senda sér kynferðisleg myndbönd og hótaði honum síðar að hann myndi gera myndirnar aðgengilegar á netinu ef hann hefði ekki kynmök við ákveðinn mann. Sá aðili reyndist vera hann sjálfur.
Drengurinn lét ekki undan þrýstingnum og kærði málið til lögreglu. Dómurinn hefur enn ekki verið birtur á heimasíðu dómstólsins en sagt var frá málinu í kvöldfréttum RÚV.
Niðurstaða dómsins markar tímamót því þetta er í fyrsta skipti sem dómar fellst á að slíkt háttalag sé heimfært undir ólögmæta nauðung. Næsta víst má telja að honum verði áfrýjað til Hæstaréttar.
Sakfelldur fyrir að reyna að þvinga fimmtán ára dreng til kynlífs
Jóhann Óli Eiðsson skrifar
