Viðskipti innlent

Yfir 30 milljarðar í tekjur af gestum ráðstefnum og hvataferðum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fjölmenn ráðstefna í Hörpu.
Fjölmenn ráðstefna í Hörpu.
Gjaldeyristekjur af ráðstefnu,- hvataferða- og viðburðagestum fyrir árið 2015 til íslenska þjóðarbúsins eru metnar á um 32 milljarða króna. Þetta kemur fram í skýrslu frá Meet in Reykjavík sem unnin var í samvinnu við Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar. Frá skýrslunni er sagt í fréttatilkynningu sem send hefur verið fjölmiðlum.

Þar kemur fram að Ísland verði stöðugt vinsælli áfangastaður fyrir ráðstefnur, hvataferðir og viðburði í alþjóðlegum samanburði. Þannig sé árlegur meðalvöxtur þessara ferðamanna um 4,4% á heimsvísu en 5% í Evrópu. Á Íslandi hefur árlegur meðalvöxtur hins vegar verið um 13,6% frá árinu 2011.

Árið 2015 er áætlað að hingað hafi komið 88.000 gestir sem tilheyra þessum hópi ferðamanna til landsins. Flestir koma utan háannartíma, eða 70% ráðstefnugesta og 75% hvataferðamanna, sem stuðlar að lengingu ferðamannatímans á Íslands.

Stígandi vöxtur er á heildarfjölda ráðstefna og hefur ráðstefnugestum fjölgað um 44% frá árinu 2011 og með tilkomu Hörpu hafa ráðstefnur með 1000 manns eða fleiri tólffaldast. Alls voru til að mynda 11 alþjóðlegar ráðstefnur haldnar í Hörpu árið 2015 en 16 eru þegar bókaðar árið 2016. Athygli vekur einnig hin mikla aukning sem orðið hefur á hvataferðum og hefur hvataferðagestum fjölgað um 152% frá árinu 2011.

Í skýrslunni kemur fram að helstu áhrifaþættir við ákvörðun um val á Íslandi fyrir ráðstefnur eru auðvelt aðgengi (flugsamgöngur), góðir innviðir (gisting, ráðstefnuaðstaða og afþreying), verð og einstakleiki landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×