Bandaríska alríkislögreglan FBI mun hefja á ný rannsókn sína á tölvupóstum Hillary Clinton, forsetaefnis Demókrata, frá því að hún var utanríkisráðherra. Forstjóri FBI, James Comey, segir að nýjar upplýsingar hafi litið dagsins ljós sem vert sé að kanna.
Fyrr á árinu rannsakaði FBI meðhöndlun Clinton á ríkisleyndarmálum þar sem hún notaði ekki öruggt tölvupóstfang sem skráð var á vefsvæði bandarísku ríkisstjórnarinnar heldur sitt eigið póstfang þegar hún starfaði sem utanríkisráðherra á árunum 2009 til 2013.
Ekki var mælt með að Clinton yrði ákærð vegna málsins. Þrátt fyrir það sagði Comey að Clinton hefði sýnt af sér alvarlega vanrækslu í starfi með tölvupóstnotkun sinni.
Nú segist FBI hafa fengið í té nýja tölvupósta frá sem beri að rannsaka með tilliti til þess hvort að í þeim hafi leynst upplýsingar sem flokka megi sem ríkisleyndarmál.
Í bréfi til Bandaríkjaþings sagði Comey að hann gæti ekki sagt til um hverju rannsóknin myndi skila né hversu langan tíma það tæki að rannsaka málið.
Talið er víst að málið muni hrista upp í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum en aðeins ellefu dagar eru til kosninga. Clinton leiðir í flestum könnunum en óvíst er hvaða áhrif rannsókn FBI muni hafa á kosningabaráttuna.
FBI rannsakar Clinton á nýjan leik
Tengdar fréttir
Tölvupóstar Clinton enn til trafala
FBI hefur sagt nokkra þeirra tölvupósta sem hún skilaði inn innihalda leyniskjöl. Slík meðhöndlun leyniskjala er ólögleg í Bandaríkjunum.