Erlent

Reyndi að bremsa sekúndu fyrir áreksturinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá vettvangi slyssins.
Frá vettvangi slyssins. Vísir/AFP
Lestarstjóri lestarinnar sem fór af sporunum á lestarstöð í New Jersey í síðustu viku reyndi að bremsa sekúndu áður en áreksturinn varð. Lestin var á tvöföldum leyfilegum hraða en skömmu áður hafði hraði hennar aukist verulega.

Ein kona lét lífið og rúmlega hundrað slösuðust.

Samkvæmt gagnaupptökum úr lestinni var hún á um 13 kílómetra hraða 38 sekúndum fyrir áreksturinn. Þá var gefið í og var hún á 34 kílómetra hraða þegar slysið varð. Leyfilegur hraði lesta í lestarstöðvum er 16 kílómetrar á klukkustund.

Rannsóknarnefnd Samgönguslysa í Bandaríkjunum segir lestarstjórann hafa sagst vera vel hvíldan fyrir atvikið þann 29. september. Hins vegar segist hann ekki muna eftir slysinu sjálfu, samkvæmt Reuters fréttaveitunni. Þá segist hann ekki hafa haft símann sinn á lofti.

Rekstrarfyrirtæki lestarkerfisins í New Jersey hefur ekki tjáð sig um niðurstöður Rannsóknarnefndarinnar. Rannsókninni á slysinu er þó ekki lokið og gæti hún tekið ár til viðbótar eða lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×