Erlent

Baráttan fyrir lögleiðingu kannabiss endaði með handtöku

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Nielsen er danskur aktívisti sem hefur talað fyrir lögleiðingu kannabiss. Hann og eiginkona hans gætu átt yfir höfði sér 10 ára fangelsi.
Nielsen er danskur aktívisti sem hefur talað fyrir lögleiðingu kannabiss. Hann og eiginkona hans gætu átt yfir höfði sér 10 ára fangelsi. vísir/getty
Lögreglan í Danmörku hefur handtekið karlmann, Claus Nielsen, fyrir sölu og dreifingu kannabisefna. Nielsen hafði atvinnu af því að selja krabbameinssjúklingum kannabis og gæti átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi.

Nielsen er aktívisti sem hefur talað mjög fyrir lögleiðingu kannabiss og er þekktur í Danmörku vegna baráttu sinnar. Hann hefur talað opinskátt um kannabissölu sína í fjölmiðlum, þar sem hann segist meðvitaður um möguleikann á ákæru, en segist telja mikilvægt að vekja fólk og stjórnvöld til vitundar um málefnið. Nielsen er þeirrar skoðunar að fagfólk eigi að mega selja kannabis, en undir eftirliti.

Í samtali við BT sagðist Nielsen hafa sannfærst um lækningamátt plöntunnar eftir að hafa byrjað að neyta maríjúana vegna slitgigtar sem hann hefur glímt við. Það hafi virkað og því hafi hann viljað aðstoða aðra í svipaðri stöðu.

Eiginkona Nielsen hefur einnig verið handtekin vegna málsins, og á jafnframt yfir höfði sér tíu ára fangelsi, fyrir brot á fíkniefnalöggjöfinni. Hún hefur hins vegar neitað öllum ásökunum á meðan Nielsen játar.

Lögleiðing kannabisefna hefur verið töluvert í umræðunni í Danmörku að undanförnu. Nýlegar skoðanakannanir benda til þess að yfirgnæfandi meirihluti Dana, eða 88 prósent, er hlynntur lögleiðingu kannabiss. Nokkrir flokkar á þingi hafa lýst yfir stuðningi við lögleiðingu efnanna en þrír stærstu flokkarnir eru andvígir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×