Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður fagnar breytingunum. „Ég tel að þetta sé til mikilla bóta, það liggur fyrir að þetta hefur á köflum verið eins og villta vestrið, þar sem nánast allar kröfur sem komið hafa frá lögreglunni hafa verið samþykktar og stimplaðar af Héraðsdómi eftirlitslaust. Það hefur enginn verið til staðar til að gæta hagsmuna þess sem er hleraður. Þess vegna er augljós réttarbót í þessum lögum og því ber að fagna lagasetningunni,“ segir Vilhjálmur.

Símhlerun er íþyngjandi rannsóknarúrræði lögreglunnar og er því mikilvægt að þeim sem hleraðir hafa verið sé tilkynnt um það þegar aðgerð lýkur. Vilhjálmur segist þekkja mörg dæmi þess að lögreglan sinni ekki þessari tilkynningarskyldu. Hann hafi sent fyrirspurn á héraðssaksóknara til þess að fá upplýst hvaða rannsóknaraðgerðum einn umbjóðandi hans hefði sætt. Héraðssaksóknari svaraði því til að umbjóðandi Vilhjálms hefði aðeins verið til rannsóknar í því máli sem til meðferðar var. Vilhjálmur sendi því sömu fyrirspurn til ríkissaksóknara en samkvæmt svari hans hafði umbjóðandi Vilhjálms sætt símhlerun í eldra máli. Það mál var til lykta leitt í Hæstarétti og samkvæmt skráningu lögreglu hafði ekki verið tilkynnt um hlerunina.
Sakamálalögum hefur nú verið breytt á þann veg að ríkissaksóknara ber að tryggja að sá sem hefur verið hleraður fái vitneskju um það innan tólf mánaða frá því aðgerð lögreglu lauk.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu