Lífið

Fiskikóngurinn og Atlantsolía í hörðu auglýsingastríði

Stefán Árni Pálsson skrifar
Nokkuð skemmtilegt.
Nokkuð skemmtilegt.
Fiskikóngurinn og Atlantsolía hafa átt í auglýsingastríði um nokkurt skeið sem náði hámarki nú í hádeginu þegar fyrirtækin voru nánast búin að kaupa upp allt auglýsingapláss fyrir hádegisfréttatíma Bylgjunnar og Rásar 2. Í auglýsingatímanum skutu talsmenn fyrirtækjanna hart á hvorn annan.

Upphafið að stríðinu má rekja til þess að Atlantsolía nýtti sér stíl Fiskikóngsins með því að auglýsa „Bensín, bensín, bensín! Bensínkóngurinn!“ en sú auglýsing var stæling á auglýsingu Fiskikóngsins sem hefur auglýst humar með þessum hætti um langt skeið.

Fiskikóngurinn svaraði Atlantsolíu seint í sumar og síðan þá hafa skotin gengið á milli þar til hápunktinum var sem fyrr segir náð í hádeginu en auglýsingastríð þeirra spannaði heilar fimm mínútur sem telst nokkuð mikið þegar kemur að birtingum auglýsinga.

„Við höfum alltaf haft gaman af auglýsingum Fiskikóngsins enda vekja þær öllu jafna mikla athygli,“ segir Hugi Hreiðarsson, markaðsstjóri Atlantsolíu. „Við ákváðum aðeins að stríða Fiskikónginum. Hann tók eftir því og svaraði á glettinn máta - svo vatt þetta svona hressilega uppá sig.“

„Þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtæki úr ólíkum geirum fara í svona auglýsingastríð mér vitandi,“ segir Páll Guðbrandsson hjá H:N Markaðssamskiptum sem sér um auglýsingar Atlantsolíu.

„Það er alltaf gaman að vinna með fyrirtækjum sem þora að brjóta upp hefðbundið markaðsstarf og prófa nýja hluti og það á svo sannarlega við um Atlantsolíu og Fiskikónginn.“ Hér að neðan má heyra umræddar auglýsingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×