Hans-Joachim Watske, hinn yfirlýsingaglaði stjórnarformaður Borussia Dortmund, sér enga rómantík í uppgangi Red Bull Leipzig.
Leipzig var stofnað árið 2009 þegar orkudrykkjarisinn Red Bull keypti 5. deildarliðið SSV Markranstädt.
Uppgangur Leipzig á undanförnum árum hefur verið ótrúlegur en liðið hefur farið upp um fjórar deildir og situr nú á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar eftir 13 umferðir. Leipzig er enn ósigrað og hefur unnið átta leiki í röð.
Sumir sjá ýmislegt sammerkt með árangri Leipzig og Leicester City sem kom öllum á óvart með því að verða enskur meistari á síðasta tímabili. Meðal þeirra er Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Leipzig.
Watske er ekki á sama máli en hann virðist tilheyra stórum hópi Þjóðverja sem hreinlega þolir Leipzig ekki.
„Þeir eru ekki með neina hefð eins og Leicester. Þetta er félag var stofnað í þeim eina tilgangi að auka tekjur Red Bull,“ sagði Watske sem viðurkennir þó að uppgangur Leipzig geri toppbaráttuna í þýsku úrvalsdeildinni jafnari og meira spennandi.
„Í Þýskalandi eru félögin í eigu stuðningsmannana og miðaverð er mjög lágt. Margir Englendingar koma til Dortmund til að sjá leiki fyrir aðeins 11 evrur,“ bætti Watske við.
Leipzig, sem er með þriggja stiga forystu á Bayern München á toppi þýsku deildarinnar, mætir botnliði Ingolstadt á útivelli á laugardaginn.
Dortmund, sem er í 6. sætinu, sækir hins vegar Köln heim á laugardaginn.
