Innlent

Allt iðandi af mús í Öndverðarnesinu

Jakob Bjarnar skrifar
Ester Rut segir músastofninn er nú í hámarki. Víða er krökkt og mýsnar gætu tekið uppá því að hrella mann og annan á næstunni.
Ester Rut segir músastofninn er nú í hámarki. Víða er krökkt og mýsnar gætu tekið uppá því að hrella mann og annan á næstunni.
„Hér er allt iðandi,“ segir Magnús Sigurðsson múrari og sumarbústaðaeigandi í Öndverðarnesi. Sá hefur verið þar um slóðir í ein 24 ár og hefur aldrei séð annað eins af mús.

„Við erum með gildrur undir bústaðnum, sem við fáum hjá meindýraeyði hér í sveitinni. En, þrátt fyrir það sér ekki högg á vatni. Nú eru þær svo kræfar og margar, þó þetta sé til staðar, að í dag þá dönsuðu þær á pallinum hjá mér.“

Nú þegar kólnar leitar músin í húsin

Ester Rut Unnsteinsdóttir er spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, segir í samtali við Vísi að blaðamaður sé ekki sá fyrsti sem hringi vegna músa.

„Það eru náttúrlega mjög margir sem verða varir við mýs núna. Það er þannig tíma,“ segir Ester Rut að því gefnu að verið sé að tala um hagamýs. Hún bendir á að það hafi verið gott sumar, afar hlýtt haust. Hún þekki ekki til hvernig háttar í Öndverðarnesinu.

Ester Rut hjá Náttúrufræðistofnun segir mikið af músum nú um stundir.visir/vilhelm
„Ég veit ekki hvernig gróðurfar er á því svæði. Enn er mikið eftir af sumarstofninum en mýs eignast bara afkvæmi á sumrin. Stofninn lítill að vori og stór að hausti. Miðað við hversu milt haust þetta hefur verið er ekkert farið að ganga á. Er rétt að byrja að kólna núna og þá menn verða meira varir við þetta, þegar þær leita sér skjóls.“

Músin dugleg

Ester Rut var á Skógum fyrir um hálfum mánuði, einmitt að veiða mýs til að gera lítilsháttar stofnmat og það veiddist ágætlega.

„Svo sér maður þegar maður er að keyra þegar hleypur yfir veginn. Ég keyrði vestur yfir firði og það var mikið af músum að hlaupa yfir veginn. Það er á haustin sem maður sér mikið af þeim.“

Ekki er annað að heyra en Ester Rut hafi dálæti á músinni. Hún vill nú ekki taka svo sterkt til orða, segist ekki vilja hafa þær heima hjá sér. „En, já, þetta eru skemmtileg dýr og hafa verið hér frá tíð víkinganna og hafa orðið íslenskari en margt annað íslenskt. Aðdáunarvert hvernig þeim hefur tekist að lifa af í þessu trjálausa landi í gegnum aldirnar,“ segir Ester Rut en á ensku heitir hagamúsin skógarmús eða Wood mouse.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×