Innlent

Þrjár stórár í vernd en Þjórsá virkjuð

Svavar Hávarðsson skrifar
Stóra-Laxá í Hreppum er einn 11 nýrra virkjunarkosta í biðflokki Rammans að óbreyttu.
Stóra-Laxá í Hreppum er einn 11 nýrra virkjunarkosta í biðflokki Rammans að óbreyttu. vísir/bh
Vatnasvið Skjálfandafljóts, Skaftár og Héraðsvatna og þar með stóru Jökulsánna í Skagafirði falla í verndarflokk Rammaáætlunar að óbreyttu. Sjö nýir virkjunarkostir falla í nýtingarflokk til viðbótar við þá níu sem fyrir voru, og þar á meðal tveir mjög svo umdeildir í neðri hluta Þjórsár – Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun.

Þetta kemur fram í drögum að lokaskýrslu verkefnisstjórnar rammaáætlunar sem lögð var fram í gær. Í skýrslunni er gerð tillaga um flokkun 25 virkjunarkosta og svæða, sem Stefán Gíslason, formaður verkefnisstjórnarinnar, gerði grein fyrir á kynningarfundi í Hörpu í gær.

Upphaflega voru gögn vegna 81 virkjunarkosts á borði verkefnastjórnarinnar þegar allt er talið. Þar af eru 47 virkjunarkostir í vatnsafli og 33 í jarðvarma. Verkefnisstjórn ákvað snemma árs 2015 að vísa aðeins rúmum fjórðungi til faglegrar umfjöllunar hjá faghópum.

Í hnotskurn má segja að fyrstu viðbrögð viðmælenda Fréttablaðsins við niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar séu blendin en þó í stórum dráttum jákvæð – og hvort sem horft er til talsmanna náttúruverndar eða þeirra sem vilja ganga lengra í nýtingu. Stóra þrætueplinu á undanförnum árum, virkjunum í neðri hluta Þjórsár, hefur nú að nýju verið skipað í nýtingarflokk. Þó er stórum spurningum vegna stofna laxfiska í ánni enn ósvarað, en óvissan um afdrif stofnanna urðu til þess að Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun voru færðar tímabundið í biðflokk. Verkefnisstjórnin komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að hún gæti ekki gengið lengra við að velta þessum einstaka þætti fyrir sér og vísar málinu áfram. Um þetta verður deilt á næstu mánuðum og árum – það liggur fyrir.

Þeir sjö virkjunarkostir sem bætast við þá níu sem fyrir voru í nýtingarflokki gefa rúmlega 600 megavött (MW) ef svo fer að þeir verði allir nýttir, en það er með öllu óvíst í dag. Þá eru innan nýtingarflokks 17 virkjunarkostir og möguleiki á 1.376 MW viðbót við orkuöflun hérlendis til næstu ára og áratuga.

Með því að flokka vatnasvið stóránna Skjálfandafljóts, Skaftár og Héraðsvatna í verndarflokk hefur hins vegar verið stigið risaskref í náttúruvernd – um það er einhugur og varðar það ekki síst hugmyndir náttúruverndarsamtaka og ferðaþjónustunnar um hálendisþjóðgarð sem kynntar voru fyrir skemmstu.

Umsagnarferli um tillögur verkefnisstjórnarinnar um flokkun virkjunarkosta hefst 11. maí Það stendur í til og með 3. ágúst. Þá mun verkefnisstjórnin ganga frá tillögum sínum til ráðherra og afhenda þær 1. september. Ráðherra gengur í framhaldi af því frá tillögu til Alþingis um þingsályktun um verndar- og orkunýtingaráætlun – eða nýja Rammaáætlun. 

Neðri-Þjórsá öll í nýtingarflokk

Í skýrslunni er gerð tillaga um flokkun 25 virkjunarkosta og svæða:

Í nýtingarflokk: Skrokkölduvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Austurengjar, Hverahlíð II, Þverárdalur og Blöndulundur.

Í verndarflokk fari fjögur svæði: Héraðsvötn (Villinganesvirkjun, Skatastaðavirkjanir C og D), Skjálfandafljót (Fljótshnúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjanir A, B og C), Skaftá (Búlandsvirkjun) og Þjórsá vestur (Kjal­ölduveita).

Í biðflokk: Hólmsá (við Atley og án miðlunar), Búðartunguvirkjun, Hagavatnsvirkjun, Stóra-Laxá, Trölladyngja, Innstidalur, Hágönguvirkjun, Fremrinámar, Búrfellslundur og Austurgilsvirkjun.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. apríl.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×