Lífið

Nágrannar fóstra leiksvæði

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Hluti íbúa sem hlúa að garðinum, Curver Thoroddsen, Phoebe Jenkins, Ásta Olga Magnúsdóttir, Þórður Jónsson og Heather Millard. Á bak við þau standa  Jóhann Kári Kjartansson, Sigrún Lára Kjartansdóttir, Olga Aletta Roux, Valur Guðmundsson og Eva Stefánsdóttir.  mynd/Eyþór
Hluti íbúa sem hlúa að garðinum, Curver Thoroddsen, Phoebe Jenkins, Ásta Olga Magnúsdóttir, Þórður Jónsson og Heather Millard. Á bak við þau standa Jóhann Kári Kjartansson, Sigrún Lára Kjartansdóttir, Olga Aletta Roux, Valur Guðmundsson og Eva Stefánsdóttir. mynd/Eyþór
Hópur íbúa í nágrenni leiksvæðis við Nýlendugötu hefur tekið garðinn í fóstur. Þau segja framtakið efla íbúaandann og styrkja tengsl manna á milli og kenna krökkunum einnig að bera ábyrgð á nærumhverfi sínu.



„Þessi garður á sér langa sögu og hefur gengið í gegnum ýmis skeið. Frá því að hafa verið gæsluvöllur í gamla daga er hann nú að verða eins konar íbúagarður eins og þekkist víða erlendis, staður sem höfðar til alls konar aldurshópa og alls konar fólks, þar sem fólk kynnist og leikur sér,“ segir Ásta Olga Magnúsdóttir, einn íbúa í nágrenni Nýlendugarðsins svokallaða, en nágrannarnir hafa tekið garðinn í fóstur.

Saman hefur hópurinn hreinsað til, málað og smíðað og hófst handa í sumar undir handleiðslu hönnunarteymisins Krukku sem skipað er Daníel Hirti og Lindu Mjöll.

„Við höfum tvisvar haft vinnudaga í sumar og verðum með einn í lok september,“ útskýrir Ásta, þetta sé íbúaframtak með aðstoð frá borginni en garðurinn er í eigu Reykjavíkurborgar.

Mynd/Ásta Olga Magnúsdóttir
Fyrir nokkrum árum átti að færa Bræðraborgarstíg niður að sjó og malbika yfir garðinn samkvæmt deiliskipulagi að sögn Ástu. Íbúarnir mótmæltu því og var deiliskipulaginu breytt í kjölfarið. Eftir þetta tímabil hafi garðurinn verið í niðurníðslu þar til fyrir fimm árum þegar Ásta sótti um í „Betri Reykjavík“ að garðurinn yrði tekinn í gegn.

„Þá var svæðið lagað mikið. Við lögðum áherslu á að það yrði snyrt og hreinsað en það var ekki til fjármagn fyrir mörg ný leiktæki. Við vorum alveg sátt við það og sáum fram á að uppbyggingin myndi gerast í skrefum og íbúar tækju þá meiri þátt. Leikvellir í Reykjavík geta verið dálítið keimlíkir og fyrir sama aldurshópinn og við vorum sammála um að það er skemmtilegast ef foreldrar hafa jafn gaman af því að koma í garðinn og krakkarnir og jafnvel líka fólk sem er ekki með börn. Það eru heldur ekki allir með garða í gamla Vesturbænum. Við hugsum þetta sem garðinn okkar allra. Við vonumst til að þetta verði lifandi verkefni sem bætir stöðugt í, kannski ný tegund af almenningssvæði hjá Reykjavíkurborg sem er hægt að skilgreina sem íbúagarð. Þar gilda aðrar reglur en á dæmigerðum leikvöllum og íbúar fá meiri ábyrgð,“ segir Ásta.

Fenguð þið frjálsar hendur? 

„Ja, ekki alveg, það þarf að fylgja ákveðnum stöðlum og reglugerðirnar eru ansi margar. Til dæmis langaði okkur að setja upp körfuboltaspjald. Borgin fjarlægði það og taldi það laða of marga unglinga að svæðinu og næturgesti. Við höfum einnig beðið um ruslatunnu en borgin óttast að eitur­lyfjaneytendur skilji þar eftir nálar. Þetta snýst um að finna ákveðið jafnvægi með borginni, það má kannski segja að við séum að læra á reglugerðirnar og borgin sé að læra á okkur." 

"Við viljum sjá fjölbreyttari leiksvæði sem ýta undir sköpunargleðina og höfða til fjölbreytts hóps, við viljum líka sjá þróun sem byggir á trausti. Okkur finnst forræðishyggjan geta gengið of langt, eins og foreldrar eigi að koma á róló og bara loka augunum á meðan börnin hoppa, en ekki leika sér með og vera vakandi með börnunum sínum. Það væri nú ekki hægt að hafa þann háttinn á í sundlaugunum! Svo má ekki gleyma að unglingar þurfa líka stað til að vera á og við þurfum að hlusta á þarfir þeirra. Það er fullt af áskorunum, nálægðin við miðbæinn hefur auðvitað margt í för með sér líka,“ segir Ásta.

Sveinn Kjartan Hjartarson leggur sitt af mörkum við skreytingarnar.


„En þetta er búið að vera gaman. Við leyfðum krökkunum að mála og taka virkan þátt. Þannig læra þau að þau eiga hlutdeild í svæðinu og þurfa að hugsa um sitt nærumhverfi. Þau eru líka „sérfræðingar“ þegar kemur að leiksvæðum. Þá er líka mikilvægt í þessu gamla hverfi þar sem svo margt er að breytast, mikil uppbygging og mikil umferð ferðamanna, að efla íbúaandann. Svona samvinna styrkir tengsl milli nágranna,“ segir Ásta og leggur áherslu á að mikil eining ríki um framtakið meðal íbúanna.

„Þó að hver einasti íbúi taki ekki beinan þátt eru allir með í anda, maður finnur það sterkt. Margir hafa bara svo mikið að gera í viðhaldi á húsunum sínum. Það er mikil vinna að halda gömlum timburhúsum við. Hverfið lítur ekki svona út af sjálfu sér,“ segir Ásta brosandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×