Innlent

Kjararáð bætir 250 milljónum við eftirlaun þingmanna og ráðherra

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Ráðherrar og þingmenn fyrir apríl 2009 fá stærri bita af þjóðarkökunni í eftirlaun með ákvörðun kjararáðs.
Ráðherrar og þingmenn fyrir apríl 2009 fá stærri bita af þjóðarkökunni í eftirlaun með ákvörðun kjararáðs. vísir/stefán
Ákvörðun kjararáðs um hækkun ráðherralauna og þingfararkaups leiðir sjálfkrafa til þess að kostnaður ríkisins vegna eftirlauna fyrrverandi ráðherra og þingmanna hækkar um samtals 250 milljónir króna á ári.

Samkvæmt upplýsingum frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins fengu 223 einstaklingar á síðustu tveimur mánuðum greidd eftirlaun vegna setu á Alþingi og 57 einstaklingar fyrir að gegna ráðherraembætti fyrir apríl 2009. Þá voru eldri lög um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingis­manna og hæstaréttardómara afnumin. Í þeim fólst að eftirlaunarétturinn miðast við þingfararkaup hverju sinni.

Eftir apríl 2009 greiða alþingismenn í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þeir ávinna sér þar réttindi eins og aðrir greiðendur og njóta engra sérréttinda.

Miðað við síðustu tvo mánuði fengu áðurnefndir 223 fyrrverandi þingmenn samtals greiddar 35,3 milljónir króna í eftirlaun á mánuði. LSR segir að með 44,3 prósenta hækkun kjararáðs á þingfararkaupi hækki mánaðarlegar greiðslur til þessa hóps um 15,6 milljónir og verði samtals 50,9 milljónir.

Mánaðarleg útgjöld LSR vegna ráðherranna 57 voru 16,6 milljónir króna en verða 22,5 milljónir með hækkuninni sem nemur 5,9 milljónum.

Samtals hækka eftirlaun þessa hóps um 21,5 milljónir króna mánaðarlega. Það samsvarar 258 milljónum á ári.

Tekið skal fram að réttindi þeirra einstaklinga sem tilheyra nefndum hópum fyrrverandi þingmanna og ráðherra eru mismikil eftir því hversu lengi þeir gegndu þingmennsku eða sátu í stóli ráðherra. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×