Innlent

Vinnuvikan stytt á fleiri stöðum í borginni

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Árangurinn þykir góður hingað til en nú er verið að kanna hvernig gengur að stytta vinnuvikuna á vaktavinnustöðum.
Árangurinn þykir góður hingað til en nú er verið að kanna hvernig gengur að stytta vinnuvikuna á vaktavinnustöðum. vísir/vilhelm
Vinnuvikan hefur verið stytt hjá eitt hundrað og tíu starfsmönnum borgarinnar í haust. Styttingin er hluti af tilraunaverkefni sem verið hefur í gangi í eitt og hálft ár. Árangurinn þykir góður hingað til en nú er verið að kanna hvernig gengur að stytta vinnuvikuna á vaktavinnustöðum.

Vorið 2015 var ráðist í tilraunaverkefni hjá Reykjavíkurborg um styttingu vinnuvikunnar. Vinnuvikan var stytt hjá Barnavernd Reykjavíkur annars vegar og hins vegar hjá þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholti. Á öðrum staðnum var vinnuvikan stytt í 35 klukkustundir og á hinum staðnum í 36 klukkustundir. Niðurstöðurnar benda til þess að stytting vinnuvikunnar hafi jákvæð áhrif á heilsu, vellíðan, starfsanda og þjónustu.

Því var ákveðið að útfæra verkefnið frekar og skoða hvaða áhrif styttri vinnuvika hefur á öðruvísi starfsstöðvum borgarinnar til dæmis eins og þeim þar sem unnin er vaktavinna.

„Núna í haust hafa bæst við hátt í tvö hundruð starfsmenn. 1. október voru starfsmenn á umhverfis- og skipulagssviði sem vinna á verk- og hverfisbækistöðvum okkar víðs vegar um borgina og núna um mánaðamótin þá vorum við að bæta við einum leikskóla, starfsmönnum Laugardalslaugar og starfsmönnum sem sinna heimahjúkrun og heimaþjónustu í efri byggð borgarinnar, í fjórum úthverfum. Þannig að við erum hérna gríðarlega spennt að fá svona fjölbreytta flóru starfsstaða og starfsmanna inn til þess að átta okkur betur á hvort að þetta sé mögulegt en að halda uppi sömu þjónustu,“ segir Magnús Már Guðmundsson borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður stýrihóps um tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×