Katrín Jakobsdóttir, alþingismaður og formaður Vinstri grænna, er nú að íhuga það hvort hún gefi kost á sér sem forseti Íslands en forsetakosningar verða þann 25. júní næstkomandi. Þetta staðfestir Katrín í samtali við Vísi en fyrst var greint frá þessu í Stundinni sem kom út í dag.
Katrín hefur notið mikils fylgis í ýmsum skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið um stuðning þjóðarinnar við mögulega frambjóðendur en í byrjun janúar var Katrín til að mynda sú sem flestir lesendur Vísis vildu sjá sem forseta. Fimmtán þúsund lesendur Vísis tóku þátt í könnuninni og hlaut Katrín 2973 atkvæði, eða um tuttugu prósent.
Í kjölfarið á þeirri könnun sagðist Katrín ekki hafa það í hyggju að fara fram en annað er uppi á teningnum nú. Hún ítrekar þó í samtali við Vísi að hún hafi ekki tekið neina ákvörðun um hvort hún fari fram.
„Nei, í raun og veru ekki,“ segir Katrín. Hún segist hafa fengið margar áskoranir og niðurstöður kannana hafi einnig gefið tilefni til að velta málunum fyrir sér.
„Það er bara eðlilegt að maður velti svona hlutum fyrir sér, annað væri ekki mannlegt,“ segir Katrín sem ætlar að gefa sér tíma til að hugsa málið. Þó ekki langan tíma. Hún reikni með að tilkynna um ákvörðun sína fljótlega, bæði sín vegna og annarra.
Katrín Jakobsdóttir íhugar forsetaframboð

Tengdar fréttir

Þorgerður Katrín að íhuga forsetaframboð
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins, íhugar nú forsetaframboð.

Baldur ætlar ekki fram
Baldur Þórhallsson hefur sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að hann ætli ekki að gefa kost á sér í næsta forsetakjöri.

Mikilvægt að hitta á rétta stund þegar kemur að tilkynningu um forsetaframboð
"Menn mega ekki fara of fljótt af stað.“