Til að fá samanburð þá eru einu neðansjávargöng Íslendinga, Hvalfjarðargöngin, nærri 6 kílómetra löng. Ef menn vildu göng milli Reykjavíkur og Akraness þá er vegalengdin þar á milli átján kílómetrar. Göngin sem Norðmenn áforma núna verða hins vegar 27 kílómetra löng, álíka og milli Álftaness og Keflavíkur.
Þau verða undir Bóknafjörðinn norðan við borgina Stafangur en þar þurfa vegfarendur á leið til Haugasunds að taka ferju. Þetta er raunar en fjölfarnasta ferjuleið Noregs enda er hún á helsta þjónustusvæði norska olíuiðnaðarins og tengir meðal annars olíuhöfuðborgina Stafangur við stærstu gasvinnslustöð landsins á Kårstö.

Þau verða tvöföld, með tvær akreinar í hvora átt og verða neyðargangar á milli. Þau verða svo löng að sérstakur loftræstistokkur með loftinntaki verður boraður upp í sker á firðinum. Og til að ökumenn slævist ekki á löngum tilbreytingarlitlum akstri verður höfð öðruvísi lýsing á nokkrum stöðum í göngunum til að skapa gervihimin og gervilandslag.
Göngin stytta ferðatíma vegfarenda um 40 mínútur og kosta um 200 milljarða íslenskra króna. Um 80 prósent kostnaðar verða greidd með veggjöldum en um 20 prósent með framlagi úr ríkissjóði. Samþykki Stórþingið tillöguna eiga framkvæmdir að hefjast á næsta ári og taka sjö til átta ár en ráðgert er að göngin verði tilbúin á árabilinu 2024 til 2025.
