Fótbolti

Pique gefst upp á stuðningsmönnum Spánar og ætlar að hætta eftir HM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gerard Pique í treyjunni umdeildu.
Gerard Pique í treyjunni umdeildu. vísir/getty
Gerard Pique, miðvörður Barcelona, er búinn að gefast upp á stuðningsmönnum spænska landsliðsins og ætlar að hætta að spila fyrir Spán eftir heimsmeistarakeppnina í Rússlandi á næsta ári.

Pique er langt frá því að vera vinsælasti leikmaður spænska liðsins en stuðningsmönnum þess finnst hann vera meiri Katalóni en Spánverji. Pique og spænsku stuðningsmönnunum hefur nokkrum sinnum lent saman en nú er mælirinn fullur.

Miðvörðurinn klippti helming ermanna af landsliðstreyjunni sinni í 2-0 sigri gegn Albaníu í gær vegna þæginda en margir stuðningsmenn Spánar töldu hann vera að klippa af spænska fánann sem er ekki á stuttermatreyju Spánar. Þeir töldu Pique hafa viljandi valið síðermatreyjuna og klippt spænska fánann af.

„Ég er búinn að reyna allt en ég einfaldlega get þetta ekki lengur. Þetta mál með ermarnar er dropinn sem fyllir mælinn,“ sagði Pique við spænska fjölmiðla.

„Fólkið hefur fengið mig til að tapa gleðinni þegar ég spila fyrir Spán. Þó ég verði aðeins 31 árs eftir HM í Rússlandi mun ég hætta að spila með landsliðinu,“ segir Gerard Pique.

Pique á að baki 84 landsleiki fyrir Spán en hann vann bæði HM 2010 og EM 2012 með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×