„Þetta er búið að eiga sér langan aðdraganda. Það eru svona tíu ár síðan ég byrjaði að vera í stöðugu sambandi við japanska sambandið,“ segir Dagur Sigurðsson handboltaþjálfari við Vísi en í kvöld verður tilkynnt að hann hafi samið við japanska handknattleikssambandið.
Er það var staðfest að Dagur myndi hætta með þýska landsliðið eftir HM í janúar var orðið ljóst að hann væri á leið til Japans.
„Ég hef verið að aðstoða Japani með þjálfara og leikmenn hér í Þýskalandi síðustu ár. Svo hef ég flogið þarna yfir einu sinni á ári til að halda fyrirlestra.“
Dagur segir að eftir Ólympíuleikana í Ríó í ágúst hafi fyrst komið upp að japanska sambandið ætlaði að bjóða sér samning um að taka við landsliði þjóðarinnar og hjálpa til við að byggja upp handboltann í landinu.
„Samningurinn er klár og þeir munu tilkynna um samninginn seint í kvöld,“ segir Dagur en talað hefur verið um að hann ætti að gera lið Japan samkeppnishæft fyrir ÓL í Tókýó árið 2020. Japanir horfa lengra en það og samningur Dags er því afar langur.
„Þessi samningur er fram yfir Ólympíuleikana 2024 þannig að þetta er í raun rúmlega sjö ára samningur,“ segir Dagur en svo langt er í þá leika að ekki liggur enn fyrir hvar leikarnir árið 2024 verða. Það verður ákveðið í september.
„Þetta er langtímaverkefni. Ég geri mér grein fyrir því að ég er ekki að búa til eitthvað súperlið fyrir árið 2020. Ég var til í að skoða þetta með þeim ef þeir væru að horfa á að lyfta boltanum upp í heild sinni. Ég mun vinna með deildarþjálfurunum og koma að ansi mörgum þáttum handboltans í Japan.“
Dagur semur við Japan til ársins 2024

Tengdar fréttir

Dagur hættir með þýska landsliðið og tekur við Japan
Dagur Sigurðsson mun stýra þýska handboltalandsliðinu í síðasta sinn á HM í Frakklandi í byrjun næsta árs. Dagur hefur ákveðið að taka við japanska landsliðinu í sumar.

Bob Hanning: Dagur breytti hugsunarhættinum í þýskum handbolta
Bob Hanning, varaforseti þýska handboltasambandsins, talar vel um Dag Sigurðsson í fréttinni um að íslenski þjálfarinn hafi ákveðið að hætta sem þjálfari þýska handboltalandsliðið eftir HM í Frakklandi.

Hanning: Staða okkar gagnvart Degi mjög þröng
Varaforseti þýska handknattleikssambandsins segir að það hafi verið lítið hægt að gera til að halda Degi Sigurðssyni.

Kretzschmar: Gerðum við nóg til að halda Degi?
Stefan Kretzschmar sér mjög á eftir Degi Sigurðssyni sem hefur ákveðið að hætta með þýska landsliðið.