Innlent

Google hefur ekki undan að fræða heiminn um Ísland

Ásgeir Erlendsson skrifar
Íslandi hefur ekki verið slegið jafn oft upp í leitarvélinni Google í sex ár eða síðan Eyjafjallajökull hrelldi flugfarþega víða um heim. Forstöðumaður hjá Íslandsstofu segir forvitni heimsbyggðarinnar á landinu nú vera allt annars eðlis en þá og telur landkynningu þjóðarinnar vegna Evrópumótsins ómetanlega.

Það er því alveg óhætt að segja að landkynningin sem þjóðin hefur fengið í kjölfar evrópumótsins gæti reynst gulls ígildi. Inga Hlín Pálsdóttir , forstöðumaður hjá Íslandsstofu, segir áhrif mótsins vera frábær fyrir þjóðina.

„Við sjáum gríðarlega mikinn áhuga og forvitni um Ísland. Ísland hefur aldrei verið googlað jafn mikið núna á á netinu síðan Eyjafjallajökull var. Við sjáum að það er komið upp í helminginn af því sem þá var. Við erum mjög spennt að sjá hvernig það verður núna í framhaldinu.“

Einnig verði að hafa í huga að nú sé verið að slá nafni Íslands inn á allt öðrum forsendum en þegar Eyjafjallajökull gaus. Þá sat fólk fast í flugvöllum en núna snýst leitin meira um forvitni.

Erfitt sé að átta sig á hversu mikil langtímaáhrifin af mótinu verða en mikilvægt sé að hamra járnið meðan það er heitt. 

„Við þurfum að nýta okkur þennan meðbyr, klárlega.“ Segir Inga Hlín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×