Erlent

Óeirðir í Marseille: Spörkuðu í hausa og létu öllum illum látum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögregla hafði í nógu að snúast í Marseille í gærkvöldi þar sem stuðningsmenn létu illum látum.
Lögregla hafði í nógu að snúast í Marseille í gærkvöldi þar sem stuðningsmenn létu illum látum. Vísir/EPA
Tveir stuðningsmenn enska landsliðsins í knattspyrnu eru alvarlega slasaðir eftir gróf slagsmál við stuðningsmenn Rússa bæði fyrir og eftir viðureign þjóðanna á EM í Frakklandi í gær. Leiknum lauk með dramatísku 1-1 jafntefli þar sem fyrirliði Rússa jafnaði metin í blálokin. Gærdagsins verður þó minnst fyrir atburði utan vallar.

Fjöldi stuðningsmanna gisti á sjúkrahúsi í nótt eftir óeirðirnar en samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum í Marseille slasaðist 31, þar á meðal eldri maður sem missti meðvitund og annar Englendingur sem fékk hjartaáfall.

Eftir átök á milli stuðningsmanna Englands og Rússlands við gömlu höfnina í Marseille í aðdraganda leiksins brutust út slagsmál á Stade Velodrome í leikslok. Íslendingar mæta Ungverjum á þessum sama velli 18. júní.

Enskir stuðningsmenn sáust á flótta undan hópi sem virtist skipaður Rússum, sumir huldu höfuð sín og kveiktu í flugeldum. Höfðu þeir brotið sér leið framhjá öryggisvörðum að því er Guardian greinir frá.

Lögregla þurfti að beita táragasi síðar um kvöldið í frönsku borginni eftir að óeirðirnar héldu áfram að leik lokknum. Þá var neðanjarðarlestakerfi borgarninar lokað um um tíma eftir leik. 

Evrópska knattspyrnusambandið mun taka óeirðirnar á leikvanginum í gærkvöldi til skoðunar og er talið líklegt að rússneska knattspyrnusambandið eigi yfir höfði sér refsingu. Rússar halda sem kunnugt er HM í knattspyrnu árið 2018.

Haft var eftir íþróttamálaráðherra Rússa, Vitaly Mutko, að þeir reiknuðu með sekt frá UEFA. Að neðan má sjá myndir og upptöku frá óeirðunum í gær. Þær eru ekki fyrir viðkvæma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×