Handbolti

Halldór Jóhann náði einstökum árangri í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Halldór Jóhann Sigfússon.
Halldór Jóhann Sigfússon. Vísir/Vilhelm
28. desember er einstaklega góður dagur fyrir einn íslenskan þjálfara. 38 ára Akureyringur ætti í það minnsta að eiga núna góðar minningar frá einum af síðustu dögum ársins.

Halldór Jóhann Sigfússon endurskrifaði sögu deildarbikars Handknattleikssambands Íslands í gærkvöldi þegar hann stýrði FH-liðinu til sigurs í Flugfélags Íslands bikarnum.

Halldór Jóhann varð þarna fyrsti þjálfarinn til að vinna þessa yngstu keppni handboltans með bæði karla- og kvennaliði.  

Deildarbikar Handknattleiksambands Íslands hefur verið í gangi frá tímabilinu 2005-06 og var þetta því í tólfta skiptið sem keppt er um hann.

FH vann tólf marka sigur á Aftureldingu í úrslitaleiknum í Flugfélags Íslands bikar karla í gær eftir að hafa slegið út nágranna sína í Haukum í undanúrslitunum kvöldið áður.

Stórsigur FH-liðsins vakti mikla athygli enda voru þeir að spila við efsta liðið í Olís-deildinni. Mosfellingar voru greinilega ennþá með hugann við jólaveislurnar því þeir voru aldrei með gegn frískum FH-ingum í gær.

Þetta var í annað skiptið sem þjálfarinn Halldór Jóhann fékk gull um hálsinn á milli jóla og nýárs.

Halldór Jóhann gerði Framkonur að deildarbikarmeisturum nákvæmlega fjórum árum fyrr eða 28. Desember 2012.

Framliðið vann þá 28-24 sigur á Val í úrslitaleik í Laugardalshöllinni og endaði þá tveggja ára sigurgöngu Hlíðarendaliðsins í keppninni.

Halldór Jóhann þekkir það líka að vinna þessa keppni sem leikmaður en hann vann deildarbikarinn árin 2007 og 2008 sem leikmaður.

Halldór Jóhann hefur fimm sinnum tekið þátt í deildarbikarnum, fjórum sinnum komist í úrslit og unnið í öll skiptin, tvisvar sem þjálfari og tvisvar sem leikmaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×