Erlent

Magnus Carlsen tryggði sér heimsmeistaratitilinn

Atli Ísleifsson skrifar
Magnus Carlsen, sem heldur upp á 26 ára afmælisdag sinn í dag, varð fyrst heimsmeistari árið 2013 þegar hann vann sigur á Indverjanum Viswanathan Anand.
Magnus Carlsen, sem heldur upp á 26 ára afmælisdag sinn í dag, varð fyrst heimsmeistari árið 2013 þegar hann vann sigur á Indverjanum Viswanathan Anand. Vísir/Getty
Norski stórmeistarinn Magnus Carlsen tryggði sér í kvöld heimsmeistaratitilinn í skák þegar hann vann sigur á Rússanum Sergei Karjakin í bráðabana.

Carlsen og Karjakin voru báðir með sex vinninga eftir skákirnar tólf og þyrfti því að grípa til bráðabana sem fór fram í kvöld.

Fyrirkomulagið var á þá leið að kepptar voru fjórar atskákir með 25 mínútna umhugsunartíma, auk þess að 10 sekúndur bættust við fyrir hvern leik.

Jafntefli varð í tveimur fyrstu skákunum, en Carlsen var með yfirburði í annarri skákinni en mistókst þó að landa sigri. Í þeirri þriðju hafði Carlsen svo sigur og átti Karjakin erfitt verk að vinna þar sem jafntefli dugði Carlsen í þeirri fjórðu – skák þar sem Carlsen var hvítur.

Karjakin reyndi að sækja gegn Carlsen en allt kom fyrir ekki. Carlsen spilaði vel og vann einnig fjórðu skákina með tilþrifum.

120 milljóna verðlaunapotti skipt á milli

Carlsen, sem heldur upp á 26 ára afmælisdag sinn í dag, varð fyrst heimsmeistari árið 2013 þegar hann vann sigur á Indverjanum Viswanathan Anand.

Karjakín vann sér inn einvígið gegn Carlsen með því að vera hlutskarpastur á áskorendamótinu svokallaða. Meðal annarra á mótinu má nefna Viswanathan Anand, Fabiano Caruana, Peter Svidler og Anish Giri.

Áður fyrr var það þannig að ríkjandi heimsmeistari héldi titlinum lyki keppni á jöfnu, eins og tilfellið er nú. Þeirri reglu hefur verið kastað fyrir borð. Auk heimsmeistaratignarinnar hlýtur sigurvegarinn bróðurpartinn af 120 milljóna króna verðlaunafénu.

Að neðan má sjá textalýsingu Chess24 yfir skákir kvöldsins. Smellið á efsta borðann til að velja skák.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×