Viðskipti innlent

Greiddu fjóra milljarða fyrir hlutinn í Domino´s á Íslandi, Noregi og Svíþjóð

Birgir Olgeirsson skrifar
Domino´s á Bretlandi hefur í hyggju að verða meirihlutaeigandi hér á landi.
Domino´s á Bretlandi hefur í hyggju að verða meirihlutaeigandi hér á landi. Vísir
Domino´s á Bretlandi greiddi fjóra milljarða króna fyrir hlut sinn í Domino´s á Íslandi, Noregi og Svíþjóð. 



Greint var frá sölunni á vef Vísis í morgun
en á vef breska dagblaðsins Telegraph kemur fram að kaupverðið á þessum minnihluta í rekstri Domino´s á Íslandi, Noregi og Svíþjóð sé um 24 milljónir punda, sem að nemur um 4,2 milljörðum íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag.

Hlutur Domino´s á Bretlandi í íslenska rekstrinum er 49 prósent en í norska og sænska rekstrinum 45 prósent.

Breska fyrirtækið, sem er skráð í bresku kauphöllina, hyggst með fjárfestingunni taka þátt í fyrirhugaðri uppbyggingu Dominos keðjunnar á Norðurlöndunum en sérleyfi fyrir rekstri Dominos staða í Noregi, Svíþjóð og Færeyjum er í eigu íslenska fyrirtækisins Pizza-Pizza ehf. Viðskiptin munu ekki hafa nein áhrif á íslenska neytendur og fyrirtækið verður áfram í meirihlutaeigu íslenskra aðila.

Á vef Telegraph kemur fram að Domino´s í Bretlandi hafi í hyggju að verða meirihlutaeigandi í fyrirtækinu sem rekur Domino´s staðina í Norðurlöndunum.

Birgir Bieltvedt opnaði Domino´s á Íslandi árið 1993 en í dag eru nítján staðir eru reknir hér á landi. Í fyrra skilaði félagið hálfum milljarði í hagnaði og jókst salan um 20 prósent. Reksturinn í Noregi hefur enn ekki skilað hagnaði en þar eru reknir tíu staðir sem voru opnaðir árið 2014. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×