Viðskipti innlent

Ætlar að þrefalda stærð Alvogen á fimm árum

ingvar haraldsson skrifar
Róbert Wessman segir Íslandi bjóðast einstakt tækifæri til að byggja upp líftækniiðnað á Íslandi.
Róbert Wessman segir Íslandi bjóðast einstakt tækifæri til að byggja upp líftækniiðnað á Íslandi. vísir/eyþór
Róbert Wessman lét af störfum sem forstjóri Actavis í ágúst árið 2008 tveimur mánuðum fyrir bankahrunið. Hann segist ekki hafa viljað starfa lengur með Björgólfi Thor Björgólfssyni, en fjárfestingafélag hans Nov­ator átti þá Actavis.

Í kjölfarið stofnaði hann ásamt fleiri aðilum lyfjafyrirtækið Alvogen árið 2009. Fyrirtækið hafi verið smátt í sniðum á mælikvarða alþjóðlegra lyfjafyrirtækja. Um 30 milljónir dollara, jafnvirði um 3,7 milljarða íslenskra króna, hafa verið settar í félagið sem hlutafé, auk lyfjaverksmiðju í Bandaríkjunum sem velt hafi sömu upphæð, tæpum fjórum milljörðum króna. „Það er í rauninni eini peningurinn sem hefur komið inn í félagið,“ segir Róbert en engu að síður hafi félagið vaxið hratt

„Við höfum verið að vaxa um tæplega 80 prósent á ári,“ segir Róbert. Alvogen sé nú orðið eitt af fimmtán stærstu lyfjafyrirtækjum heims og stefni í að tekjur félagsins verði nærri milljarði dollara í ár, um 120 milljarðar íslenskra króna. Þá sé markmið félagsins skýrt, að þrefalda tekjur þess á næstu fimm árum þannig að þær nái þremur milljörðum dollara á ári, um 360 milljörðum íslenskra króna. Hjá fyrirtækinu, sem sérhæfir sig í framleiðslu og sölu samheitalyfja, starfa nú 2.300 manns í 35 löndum. Róbert segir einkum tvær ástæður fyrir vexti Alvogen. „Þetta var blanda af því að velja réttu markaðina og réttu lyfin. Við ákváðum til dæmis að fara ekki inn á Vestur-Evrópu þar sem samkeppnin var orðin alveg gríðarleg. Ísland sé eina landið í Vestur-Evrópu þar sem Alvogen sé með starfsemi. Við fórum inn á Asíu sem mjög fá af þessum stóru fyrirtækjum voru komin inn á.“

Róbert á tæplega helmingshlut í húsinu í Vatnsmýrinni. Hann segir það aldrei hafa staðið til að hann ætti húsið til langframa. Einhver hafi þurft að fjármagna bygginguna og aðrir fjárfestar hafi verið tregir til.vísir/eyþór
Fæstir fá líftæknilyf sem þurfa

Svokallað hátæknisetur Alvogen og systurfyrirtækisins Alovtech var opnað í Vatnsmýrinni á föstudaginn. Alvotech hyggst framleiða samheitalyf líftæknilyfja. „Hugmyndin kviknaði fyrir 15 árum, þá var þessi samheitalyfjastarfsemi ekki byrjuð nema að litlu leyti þar sem ekki var búið að skilgreina lagarammann í kringum þróun samheitalyfja.“ Slík lyf eru mun dýrari í framleiðslu en hefðbundin samheitalyf. Það kosti um tólf milljarða að þróa samheitalyf fyrir líftæknilyf en hefðbundin samheitalyf kosti á milli 300 og 500 milljónir króna í framleiðslu. Vegna þess hve dýr líftæknilyf séu í framleiðslu séu átta af tíu söluhæstu lyfjum heims, miðað við tekjur, líftæknilyf. Ekki sé óalgengt að kostnaður við lyfjameðferð hvers sjúklings sé fjórar til átta milljónir króna á ári. 



„Þau eru það dýr að í mörgum löndum í heiminum í dag eru það aðeins um fimm prósent af sjúklingum, sem þyrftu þessi lyf, sem fá þau.“ Því sé til mikils að vinna að koma ódýrari lyfjum á markað. Róbert segir að hefðbundin lyf séu unnin úr kemískum efnum en líftæknilyfin nýti lifandi frumur. „Þú þarft að þróa þessar frumur á ákveðna vegu þannig að þær framleiði ákveðin prótín. Í raun og eru þessi lyf miklu skilvirkari en gömlu lyfin,“ segir hann.

Framkvæmdir við byggingu hófust árið 2013.Mynd/Ari Magg
Ísland ekki endilega lógískt val

„Við erum búin að fjárfesta um átta milljarða, það er í raun og veru bara húsið. Við komum svo með um 200 starfsmenn hérna, allt fólk sem er háskólamenntað,“ segir Róbert um hið nýja húsnæði í Vatnsmýrinni

„Síðan er náttúrulega stór fjárfesting yfirvofandi næstu tuttugu árin í þróun á þessum lyfjum. Við reiknum með að eyða í það heila 75 milljörðum í þau lyf sem eru núna í þróun.“ Þar af verði 35-40 prósent af kostnaðinum á Íslandi.

Róbert segir fleiri staði en Ísland hafa komið til greina við val á staðsetningu fyrir hátæknisetrið. „Ísland var ekki endilega sérstaklega lógísk staðsetning þegar upp var staðið. Kannski hefði verið lógískast að setja þetta þar sem menn fengju fyrirgreiðslu og stuðning. En það að hafa það tækifæri að geta byggt upp þessa starfsemi á Íslandi fannst mér skipta gríðarlega miklu máli,“ segir hann.

Fá lönd sem hafi sömu tækifæri

„Þessi þekking er ekki til nema í örfáum löndum í heiminum í dag.“ Því séu gífurleg tækifærin á Íslandi við uppbyggingu á líftækniiðnaði.„Þekkingin sem skapast á svona stað er gríðarleg, bæði til að fá fleiri svona fyrirtæki en ekki síður ef maður vill vera heiðarlegur hér, að starfsfólk sem kemur hér á Íslandi og fær þessa þekkingu á mjög auðvelt með að fara að starfa erlendis í mjög vel launuð störf,“ segir hann. „Svo er annara vonandi að gera enn meira úr því en við erum að gera. Það er stóra tækifærið í heildarmyndinni,“ segir Róbert.

„Þetta fyrirtæki á vonandi eftir að halda áfram að vaxa og dafna hér og halda áfram að skila gjaldeyristekjum löngu eftir að við setjumst í helgan stein.“

Róbert segir Íslandi bjóðast einstakt tækifæri til að byggja upp iðnað fyrir líftæknilyf.
Húsið í eigu Róberts Hið svokallaða Hátæknisetur í Vatnsmýrinni er í eigu Fasteignafélagsins Sæmundar ehf. sem var að fullu í eigu Róberts sjálfs á framkvæmdatímanum. Hann seldi fasteignafélaginu Stefni 51 prósent hlut í félaginu undir lok síðasta árs.  Róbert segir tvær ástæður fyrir að húsið hafi verið í hans eigu. Ekki hafi verið talið heppilegt að Alvogen væri hluthafi í Alvotech til að forðast hagsmunaárekstra þar sem reynt hafi verið að laða frumlyfjafyrirtæki að Alvotech.

Þá hafi fjárfestar verið mjög áhugasamir um verkefnið en fáir hafi verið tilbúnir að fjárfesta í verkefninu. „Það réttu allir upp hönd að fara endilega í bransann en svo þegar kom að því að setja pening í þetta rétti enginn up hönd. Þannig að menn voru sammála um það að drífa í þessu svo lengi sem enginn þyrfti að setja peninga í þetta. Það var nú ástæðan fyrir því að sparibaukurinn var brotinn upp og ég endaði sem hluthafi þarna.“

Þá hafi verið vilji til að fjárfesta þeim fjármunum sem til voru í þróun á lyfjum. „Við vildum ekki skuldsetja Alvotech fyrir húsinu vegna þess að það hefði í raun og veru minnkað getu félagsins til að sinna þróunarverkefnum þegar við förum af stað í byrjun. Við vildum frekar tryggja það að þeir aurar sem voru þó til staðar færu í að þróun á lyfjunum og fjármagna húsið bara sér,“ segir hann.

Róbert stór hluthafi í Alvogen

Róbert segir að hann eigi meirihlutann í félaginu Aztiq sem eigi um einn þriðja í Alvogen. Á síðasta ári keypti hópur fjárfesta undir forystu fjárfestingarsjóðanna CVC Capital Partners og Temasek meirihluta hlutafjár í Alvogen þar sem félagið í heild var metið á um tvo milljarða dollara, um 240 milljarða króna. Miðað við þær upplýsingar er hlutur Róberts tug milljarða virði. Róbert segir sjóðina yfirleitt horfa til sjö ára í sínum fjárfestingum. „Það getur vel hugnast mönnum gæti ég trúað að setja félagið á markað,“ segir Róbert. En það verði þó að líkindum ekki fyrr en eftir 4-5 ár hið fyrsta ef af verði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×