Erlent

Segir ketti hafa „hrikaleg áhrif“ á lífríki

Samúel Karl Ólason skrifar
Köttur sem hefur veitt litla eðlu.
Köttur sem hefur veitt litla eðlu. Vísir/Getty
Kettir hafa gert minnst 63 tegundir fugla, spendýra og eðlna útdauðar á síðustu 500 árum. Bandarískur vísindamaður segir að drepa eigi villta ketti sem ekki takist að finna heimili og að heimiliskettir eigi að vera inni.

Samkvæmt nýrri rannsókn vísindamanna í Ástralíu eru nagdýr einu dýrin sem hafa gert fleiri tegundir útdauðar en kettir. Önnur dýr sem hafa haft mikil áhrif eru hundar og svín.

Tim Doherty, einn af höfundum rannsóknarinnar, segir í samtali við Gizmodo að áðurnefndar tegundir, ásamt nokkrum öðrum, hafi leitt til údauða um 87 fuglategunda, 45 spendýra og tíu eðlutegunda. Þessar tegundir ógna til viðbótar 596 dýrategundum.

Peter Marra, yfirmaður fulgamiðstöðvar Smithsonian safnsins, segir lausa og villta ketti hafa „hrikaleg áhrif“ á lífríki. Þess vegna ætti að drepa alla villta ketti og halda heimilisköttum inni.

Telegraph hefur eftir Marra að um 8,1 milljón kettir í Bretlandi drepi um 55 milljón fugla á ári hverju. Í Bandaríkjunum er talið að kettir drepi um þrjár til fjórar milljónir fugla á ári.

„Við höfum vitað í rúm hundrað ár að kettir geta haft hrikaleg áhrif á fjölbreytileika lífríkis. Við þurfum nauðsynlega að komast að niðurstöðu varðandi lausagöngu katta. Kattaeigendur þurfa að setja ól á ketti sína. Markmið okkar varðandi villta ketti þarf að vera að þurrka þá út.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×