Bíó og sjónvarp

Tvær kvikmyndir með Alan Rickman frumsýndar í ár

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Alan Rickman í hlutverki herforingjans Frank Benson.
Alan Rickman í hlutverki herforingjans Frank Benson.
Leikaranum ástsæla Alan Rickman, sem varð heiminum harmdauði í janúar síðastliðnum eftir baráttu við krabbamein, mun bregða fyrir í tveimur nýjum kvikmyndum í ár.

Í kvikmyndinni Eye In The Sky, sem væntanleg er í kvikmyndahús í apríl, leikur Rickman ásamt þeim Hellen Mirren og Aaron Paul.

Sjá einnig: Alan Rickman látinn

Myndin fjallar um afleiðingar drónaárása og er sögð spennutryllir af bestu gerð. Þar bregður Rickman sér í líki herforingjans Frank Benson sem verður að ákveða hvort uppræting glæpahóps í Austur-Afríku réttlæti dauða ungrar stúlku. Hér að neðan má sjá stiklu úr Eye In the Sky.

Í nýrri kvikmynd um ævintýri Lísu í Undralandi, Alice Through The Looking Glass, má heyra hina einkennandi rödd Rickmans en hann ljáði margfætlunni rödd sína áður en hann lést.

Í stiklunni hér að neðan má til að mynda heyra henni bregða fyrir. „Þú hefur verið of lengi í burtu, Lísa. Vini má ekki hunsa," segir hann meðal annars. Kvikmyndin verður frumsýnd í maí.

Þrátt fyrir að hlutverk margfætlunnar sé ekki það stærsta sem hann tókst á við bætist hún í hóp þeirra fjölmörgu persóna sem Rickman glæddi lífi og höfðu áhrif á dægurmenningu vesturheims. 

Fjölmargir minnast Rickmans sem Hans Gruber úr kvikmyndinni Die Hard frá árinu 1988. Nokkrum árum síðar lék hann svo illmennið í Robin Hood: Prince of Thieves, fógetann af Nottingham, þar sem Kevin Costner var í hlutverki Hróa Hattar. Leikarinn eignaðist svo fleiri aðdáendur í myndinni Love Actually og þegar hann túlkaði Snape professor í Harry Potter-myndunum.


Tengdar fréttir

Alan Rickman látinn

Alan Rickman varð 69 ára en hann var einn ástsælasti leikari Bretlands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.