Innlent

Mun verra fyrir umhverfið að fá sér plastjólatré

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Að fá sér plastjólatré fyrir jólin hefur margfalt verri áhrif á umhverfið en að fá sér lifandi tré, jafnvel þó að þau séu notuð mörg ár í röð. Fyrir hvert íslenskt tré sem höggvið er eru fimmtíu ný gróðursett.

Samkvæmt upplýsingum frá Skógaræktarfélagi Íslands hafa gervijólatré þrefalt meiri áhrif á loftslagsbreytingar en lifandi tré. 

„Ef þú kaupir þér plasttré þá þarf að framleiða það, venjulega í Kína, og það er gert úr jarðolíu og síðan þarf kolaorkuver til að búa það til. Síðan eru þau flutt með skipum til landsins og svo þarf að farga þeim. Þetta skilur eftir sig um það bil fimmtíu kíló af kolefnisútblæstri út í loftið,“ segir Helgi Gíslason framkvæmdastjóri Skógræktar Reykjavíkur.

Lifandi jólatré sem seld eru hér á landi eru aftur á móti mörg innflutt en flutningur yfir hafið hefur neikvæð umhverfisáhrif. Umhverfisvænast er að kaupa íslensk tré, sem vaxið hafa nálægt heimilinu. Fyrir hvert tré sem Skógræktarfélagið selur gróðursetja félagsmenn fimmtíu tré á móti. 

Kristín Erla Gísladóttir, framkvæmdastjóri Garðheima, segir að undanfarin ár hafi margir haft umhverfið í huga við kaup á jólatrjám. 

„Já við sjáum að það hefur verið stór breyting á undanfarin tvö til þrjú ár,“ segir hún.

Því standi nú ýmsir umhverfisvænir kostir til boða. Fólk geti til dæmis keypt tré með rótum sem má gróðursetja úti í garði eftir hátíðarnar.

„Það getur lifað árum saman. Og svo getur fólk þess vegna tekið tréð aftur inn fyrir næstu jól.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×