Fótbolti

Aron Einar: „Hringdi oft hágrenjandi í mömmu en fékk alltaf sama svarið“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í fótbolta, viðurkennir að fyrstu árin í atvinnumennskunni hafi verið honum erfið, en hann fór 16 ára gamall í unglingaakademíu AZ Alkmaar í Hollandi.

Fyrirliðinn segir frá fyrstu skrefunum í atvinnumennskunni líkt og aðrir strákanna okkar í aukefni myndarinnar Jökullinn Logar sem er komin út á DVD.

„Það var stórt stökk upp á við fyrir Akureyring að fara til Hollands og á þeim tímapunkti hugsaði ég að nú væri kominn tími til að gera þetta almennilega fyrst maður var kominn út í þetta,“ segir Aron sem átti erfitt uppdráttar til að byrja með.

„Ég hringdi oft hágrenjandi í mömmu á kvöldin af því að mér leið illa í Hollandi. Ég fékk alltaf sama svarið frá þeirri gömlu. Hún benti á að félagar mínir myndu gefa aðra höndina fyrir að vera á sama stað og ég var á. Það hvatti mig alltaf meira og meira til að ná sem lengst.“

Aron Einar segir frá því að hann hafi ekki verið sá besti þegar hann fór út en gamla íslenska viðhorfið sem íslenskum fótboltamönnum hefur svo oft verið hrósað fyrir kom honum á endanum jafnlangt og raun ber vitni.

„Það var mikill gæðamunur á mér og jafnöldrum mínum í Hollandi en það sem við Íslendingar höfum yfir aðrar þjóðir er viðhorfið,“ segir hann.

„Á einhverjum tímapunkti áttaði ég mig á því að ég var farinn að ná samherjum mínum í gæðum en ég hafði enn þá þennan vilja til að ná lengra en þeir,“ segir Aron Einar Gunnarsson.

Brot úr aukaefni myndarinnar Jökullinn Loga má sjá hér að ofan en þar ræða strákarnir okkar um fyrstu skrefin sín í atvinnumennsku. Jökullinn Logar er mynd Sölva Tryggvasonar um ferðalag strákanna okkar á EM í Frakklandi en hún er nú komin út á DVD með fjórum klukkustundum af aukaefni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×