Sýrland Sýrlenski stjórnarherinn varpaði í gær, með aðstoð Rússa, sprengjum í gríð og erg á svæði uppreisnarmanna í austurhluta borgarinnar Aleppo. Sýrlandsstjórn sagðist staðráðin í að ná þessum svæðum aftur á sitt vald. Þetta var annar dagurinn í röð sem loftárásir voru gerðar á þessi svæði.
Fréttastofan Al Jazeera segir að þrjár af fjórum bækistöðvum hjálparstarfsmanna í borginni hafi orðið fyrir árásum. Tvær þeirra séu nú óstarfhæfar. Þá hafa þrjár læknamiðstöðvar einnig orðið fyrir loftárásum.
Hátt í þrjú hundruð þúsund manns eru talin búa enn á svæðum uppreisnarmanna, sem árum saman hafa mátt þola linnulitlar loftárásir frá stjórnarhernum.
Lengi hefur illa gengið að koma hjálpargögnum inn á þessi svæði, sem stjórnarherinn situr um.
Skammvinnt vopnahlé rann út í sandinn um síðustu helgi eftir að hafa staðið í tæpa viku.
Bæði Rússar og Bandaríkjamenn reyna nú, ásamt fulltrúum bæði Sýrlandsstjórnar og uppreisnarmanna, að koma á vopnahléi aftur, þótt takmarkaðar vonir séu bundnar við að það takist alveg á næstunni.
Í verkahring Rússa að halda aftur af sýrlandsher
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að eina leiðin til að koma á vopnahléi sé að þeir sem hafi getu til að stunda loftárásir hætti því einfaldlega.
„Ef ekkert meiri háttar af því tagi gerist þá teljum við engan tilgang í því að gefa út fleiri loforð eða áætlanir eða tilkynna um eitthvað sem ekki er hægt að fylgja eftir eða gera að veruleika,“ sagði hann í gær.
Bandaríkin hafa sagt það vera í verkahring Rússa að fá sýrlenska stjórnarherinn til þess að halda aftur af sér, en í staðinn reyni Bandaríkin að halda aftur af uppreisnarmönnum.
Borgarastyrjöldin í Sýrlandi hefur nú staðið í fjögur og hálft ár og kostað hundruð þúsunda lífið.
Harðar árásir á íbúa í Aleppo
