Erlent

Suður-afrískur barnaræningi fær tíu ára dóm

Atli Ísleifsson skrifar
Celeste Nurse, móðir stúlkunnar, sem rænt var.
Celeste Nurse, móðir stúlkunnar, sem rænt var. Vísir/AFP
Dómstóll í Suður-Afríku hefur dæmt konu í tíu ára fangelsi fyrir að rænt ungabarni á sjúkrahúsi fyrir nítján árum síðan og alið það upp sem sitt eigið. Málið hefur vakið gríðarlega athygli í Suður-Afríku og víðar.

Konan, sem er 51 árs, var handtekin árið 2015 eftir að fólk tók eftir ótrúlegum líkindum með stelpunni, Zephany Nurse, og annarri stelpu í skólanum. Lífsýni voru tekin og kom í ljós að þær voru í raun systur.

Í frétt BBC er haft eftir dómaranum John Hlophe að konan hafi svikið Zephany með gjörðum sínum. Sagði Hlophe að konan hafi haft ótakmarkaðan tíma til að skila barninu en hafi kosið að gera það ekki.

Fjölmiðlar í Suður-Afríku höfðu reglulega fjallað um árlega minnisstund foreldra stúlkunnar á afmælisdegi dótturinnar, og því segir dómarinn að útilokað sé að konan hafi ekki vitað að foreldarnir væru enn að leita að barni sínu. Þá sagði dómarinn að ákvörðun hennar að lýsa yfir sakleysi sínu og sjálf segjast vera fórnarlamb í málinu hafi vegið til þyngingar refsingar.

Suður-afrískir fjölmiðlar hafa áður greint frá því að fórnarlambið, það er stúlkan, vilji ekki taka upp samband við raunverulega foreldra sína og álíti konuna sem rændi henni vera móður sína.

Líffræðileg amma stúlkunnar sagði eftir að dómur féll að hún væri ekki sérstaklega ánægð með lengd dómsins, en vonaðist til að fjölskyldunni gæfist nú tækifæri á að kynnast stúlkunni og mynda tengsl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×