Erlent

Apple sagt með heilsutæki í smíðum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Tim Cook, forstjóri Apple
Tim Cook, forstjóri Apple Vísir/Getty
Forsvarsmenn Apple eru í viðræðum um þróun á heilsutæki, samkvæmt Business Insider.

Viðræður standa yfir vegna þróunar á nýju tæki sem getur mælt og safnað upplýsingum um hjartslátt, púls, blóðsykur og önnur heilsumerki. Viðræður eru í gangi með framleiðendum á borð við TSMC, Foxconn, TPK, Zhen Ding Technology og fleirum. Búist er við að tækið verði sjálfstætt, en ekki hluti af snjallúrinu Apple Watch, og verður hugsanlega kynnt samtímis nýjum iPhone haustið 2017.

Sögusagnir eru um að Apple hafi verið að þróa skynjara sem geti mælt blóðsykur frá því að áður en Apple Watch var sett á markað. Skynjararnir verða að geta mælt heilsuvísa án þess að nota blóð.

Ljóst er að framtíðaráform Apple hafa með heilsu að gera en fyrirtækið hefur ráðið fjölda lækna og hjúkrunarfræðinga sem starfa við rannsóknir hjá fyrirtækinu.

Fréttin birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×