Viðskipti innlent

María Björk til Expectus

Sæunn Gísladóttir skrifar
María Björk Óskarsdóttir viðskiptafræðingur og ráðgjafi hefur verið ráðin til ráðgjafafyrirtækisins Expectus.
María Björk Óskarsdóttir viðskiptafræðingur og ráðgjafi hefur verið ráðin til ráðgjafafyrirtækisins Expectus.
María Björk Óskarsdóttir hefur gengið til liðs við Expectus. Fram kemur í tilkynningu að María Björk býr yfir víðtækri starfsreynslu til fjölda ára tengt fyrirtækjarekstri, markaðsráðgjöf, námskeiðahaldi auk verkefna- og framkvæmdastjórn ólíkra verkefna. Hún er Cand.Oecon í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, hefur lært markþjálfun og lokið PMD stjórnendanámi frá Háskólanum í Reykjavík.

Árið 2008 stofnaði María Björk ásamt samstarfskonu sinni, Nýttu kraftinn en saman þróuðu þær aðferðafræði, útfærðu kennsluefni og héldu árangursrík námskeið sem gríðarlegur fjöldi fólks í atvinnuleit sótti. Samnefnda bók gáfu þær út árið 2013 og buðu síðar upp á sérsniðna stjórnendaþjálfun í samstarfi við HR. María Björk hefur ennfremur veitt fjölda fólks, ekki síst stjórnendum, einstaklingsmiðaða ráðgjöf, haldið fyrirlestra og styttri námskeið sem og setið í stjórnum margra félagasamtaka.

María Björk starfaði um langt árabil sem markaðs- og viðskiptastjóri á auglýsingastofunum Yddu og Ennemm fyrir fyrirtæki úr flestum greinum atvinnulífsins, þaðan sem hún færði sig yfir til Landsbankans árið 2004. Þar vann hún að fjölbreyttum verkefnum bæði innan markaðs- og þjónustudeildar en tók svo að sér framkvæmdastjórn á umfangsmiklum sérverkefnum fyrir bankastjórn og bankaráð á árunum 2006-2008.

Hjá Expectus starfa nú 22 starfsmenn við ráðgjöf á sviði stefnumótunar, rekstrar, ráðninga og upplýsingatækni og við hugbúnaðargerð.

 

 

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×