Innlent

Algengt vandamál að stjórnvöld lofi fjármunum sem ekki séu til

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
„Við skulum ræða það hvar við eigum að sækja þessa peninga. Mér vitanlega er ekki auðvelt að spara átta þúsund milljónir í félagmálaráðuneytinu."
„Við skulum ræða það hvar við eigum að sækja þessa peninga. Mér vitanlega er ekki auðvelt að spara átta þúsund milljónir í félagmálaráðuneytinu." vísir/vilhelm
Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, segir það algengt vandamál að stjórnvöld lofi fjármunum sem ekki séu til. Mikilvægt sé að þau sýni ábyrgð í fjármálum og þannig fylgi lögum um opinber fjármál.

Tilefni orða Guðlaugs eru loforð félagsmálaráðherra um lengra fæðingarorlof og hærri greiðslur, sem kæmu til með að kosta ríkissjóð átta milljarða króna. Loforðin séu innistæðulaus enda hafi ráðherrann ekki sparað þessa milljarða.

„Við skulum ræða það hvar við eigum að sækja þessa peninga. Mér vitanlega er ekki auðvelt að spara átta þúsund milljónir í félagmálaráðuneytinu. Eins og staðan er núna er ríkisstjórnin að vinna að því, sem ég held að sé mjög skynsamlegt, að einfalda lífeyriskerfið og sömuleiðis að þá styrkja þá sem minnst hafa þar. Það mun kosta peninga,“ segir Guðlaugur. Þá sé aldurssamsetning þjóðarinnar að breytast.

„Við erum að sjá það að þeir sem eru 67 ára og eldri þeim mun fjölga um fimmtíu prósent á næstu tíu árum. Sem þýðir það að við erum að sjá breytta aldurssamsetningu sem mun kalla á aukin framlög og verkefni á heilbrigðisþjónustu, og að vísu á fleiri sviðum.“

Tillögur félagsmálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, snúa að því að hámarksgreiðslur foreldris úr fæðingarorofssjóði verði 600 þúsund krónur á mánuði og að tekjur allt að 300 þúsund krónum á mánuði skerðist ekki, líkt og nú er. Hún hyggst leggja fram frumvarp þess efnis á næstunni.

Guðlaugur segir það hafa verið vandamál í áratugi að ráðherrar lofi peningum sem ekki séu til. Því þufi að breyta.

„Það eru lög hér í landinu um opinber fjármál. Við ætlum og lofuðum því og það er í lögum að við ætlum að horfa í lengri tíma, við ætlum að hafa haga í ríkisfjármálum. Af hverju ætlum við að gera það? Vegna þess að við getum ekki bætt lífskjör til lengri tíma nema við vinnum með þessum hætti,“ segir Guðlaugur.

Guðlaugur ræddi málið í Bítinu í morgun en hlusta má á viðtalið í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×