Skoðun

„Get ég hjálpað þér?“

Þóra Jónsdóttir skrifar

Öll börn eru einstaklingar með sjálfstæð mannréttindi sem samfélagið allt, sérstaklega þó fullorðna fólkið, á að taka þátt í að virða og framfylgja. Mörg börn búa við erfiðar aðstæður heima fyrir sem jafnvel mikil leynd ríkir yfir eða skömm. Því má velta fyrir sér hvernig aðstandendur, nágrannar eða vinir geta hjálpað börnum í slíkum aðstæðum. Það er auðvitað fyrst og fremst á ábyrgð foreldra og ríkisins í sameiningu að tryggja börnum góð uppeldisskilyrði og búa svo um að þau njóti allra þeirra mannréttinda sem Barnasáttmálinn kveður á um.

Hverjum manni skylt

Þó hvílir ákveðin skylda á almenningi að gera sitt til að hjálpa. Meðal annars má nefna að samkvæmt barnaverndarlögum er „öllum … skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Þá er hverjum manni skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart ef ástæða er til að ætla að heilsu eða lífi ófædds barns sé stefnt í hættu með óviðunandi eða háskalegu líferni þungaðrar konu, t.d. með ofneyslu áfengis eða fíkniefnaneyslu, eða með því að þunguð kona er beitt ofbeldi eða ef ástæða er til að ætla að þunguð kona sé beitt ofbeldi eða um hvert það tilvik sem telja má að barnaverndarnefnd eigi að láta sig varða.“

En annað er líka hægt að gera þegar við höfum áhyggjur af börnum. Við getum átt samtal við foreldrana. Við getum sýnt þeim kærleika, stuðning og boðið styrk og huggun. Margir hafa þörf fyrir að hjálpa og margir geta þegið og vilja þiggja hjálp. Oft þarf ekki annað til en að gefa af tíma sínum til að eiga samtal. Gefum fólki færi á að létta á hjarta sínu. Líkur eru á að foreldrar einangrist síður með vanda sinn og hann ágerist síður, með tilheyrandi afleiðingum fyrir börnin, ef við gefum stundarkorn af tíma okkar til að spjalla. Alltaf er hægt að benda á ýmsar lausnir og bjóða stuðning.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×