Þegar nokkrar mínútur voru til leiksloka var blysum kastað inn á völlinn, fyrir aftan tékkneska markið. Einnig brutust út slagsmál á meðal króatísku stuðningsmannanna.
Enski dómarinn Mark Clattenburg gerði nokkurra mínútna hlé á leiknum á meðan blysin voru hreinsuð af vellinum.
Hléið virtist fara illa í leikmenn Króatíu sem fengu á sig jöfnunarmark skömmu eftir að Clattenburg flautaði leikinn aftur á. Leikurinn endaði með 2-2 jafntefli.
Eftir leikinn sendi UEFA frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að uppákoman á Saint-Étienne yrði tekin til skoðunar á morgun.

„95% af stuðningsmönnum Króata þurfa að skammast sín fyrir hegðun nokkurra skemmdra epla. Þetta eru íþróttahryðjuverkamenn og þeir gera bara það sem þeim sýnist. Þetta eru ekki stuðningsmenn heldur fótboltabullur,“ sagði Cacic eftir leikinn.
Króatar voru þegar undir smásjánni hjá UEFA eftir að stuðningsmaður liðsins hljóp inn á völlinn til að fagna marki Luka Modric í leiknum gegn Tyrklandi á sunnudaginn.
Svona vandræði í kringum stuðningsmenn Króatíu eru ekki ný af nálinni. Gera þurfti hlé á leik Króata og Ítala í Mílanó í undankeppni EM vegna kynþáttafordóma stuðningsmanna Króatíu. Þá var dregið stig af Króatíu vegna þess að hakakross var sleginn í völlinn í Split og þeim gert að spila tvo leiki fyrir luktum dyrum.