„Það er fullt af liði búið að hoppa á íslenska vagninn,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson við blaðamenn í gær. Strákarnir okkar hafa fundið fyrir miklum áhuga að utan undanfarna mánuði, áhuga sem hefur aðeins aukist eftir komu liðsins hingað. Allt í einu eru m.a.s. íslenskir blaðamenn orðnir áhugaverðir. Getið þið útskýrt það af hverju strákarnir okkar eru svona góðir? Hvað finnst ykkur um Lars Lagerbäck? Hvað eru ykkar frábæru stuðningsmenn að syngja? Geturðu þýtt textann fyrir mig?
Hegðun og ummæli Cristianos Ronaldo um okkar menn urðu til þess að athyglin á leiknum gegn Portúgal varð mun meiri en hún hefði orðið ella. Úrslitin eru frábær en langt í frá gríðarlega óvænt í sögulegu samhengi. Þótt þeir rauðklæddu hafi verið mun líklegri vissu allir sem hafa snefilsvit á fótbolta að okkar menn ættu möguleika.
Svo er það að kunna að taka tapi, reyndar jafntefli í þessu tilfelli. Auðvelda leiðin fyrir Ronaldo hefði verið að hrósa litla liðinu fyrir elju og dugnað, láta skítkast eiga sig. Honum var það fyrirmunað og örugglega margir sem hafa stokkið á Messi-vagninn eftir ummæli hans um strákana okkar.

Æfingin var blaut hjá strákunum í Annecy í gær. Ég sá reyndar ekki æfinguna en annað er óumflýjanlegt því það rigndi allan daginn. Rigningin kom í veg fyrir að fjölmiðlamótið í fótbolta gæti farið fram. Allajafna keppa fjölmiðlamenn í keilu í svona ferðum en afrekskeiluspilarinn Björn Sigurðsson, Böddi the great, gleymdi að bóka sal.
Fram undan er ferðadagur til Marseille á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Þar verður mikið húllumhæ hjá Íslendingum sem verða örugglega ekki færri en í Saint-Étienne þar sem átta þúsund landar okkar studdu okkar menn.
Íslenska pressan fær að fljóta með strákunum í flugvélinni með loforði um að láta leikmennina í friði um borð í vélinni. Það loforð verður ekki svikið enda fullkomlega sjálfsagt. Strákarnir okkar eru hins vegar lítið að pæla í þjóðhátíðardeginum.
„Ha? Fagna á morgun?“ sagði Jóhann Berg spurður af erlendu pressunni hvort íslensku strákarnir ætluðu að slá upp veislu í tilefni dagsins. „Leikurinn er á laugardag.“