Erlent

UN Women stendur fyrir neyðarsöfnun fyrir konur og börn í Mosul

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Írakar flýja Mosul á leið í flóttamannabúðir
Írakar flýja Mosul á leið í flóttamannabúðir Vísir / Eba
UN Women á Íslandi hefur stofnað til sms-neyðarsöfnunar til styrktar konum og börnum sem búa við bág kjör í borginni Mosul í Írak. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá UN Women á Íslandi.

UN Women hefur staðið að markvissri aðstoð á svæðinu í samstarfi við ýmis kvennasamtök og veitir konunum nauðsynjavörur og aðgengi að svokölluðum griðarstöðum. Samtökin hjálpa konunum að rísa upp úr ólgunni og finna rödd sína og tilgang aftur.

Samkvæmt Dr. Paulinu Chiwangu staðgengils svæðisstýru UN Women í Írak eru konur á þessu svæði innilokaðar og með ekkert aðgengi að umheiminum, en samtökin þurfa fjármagn til að sinna þessum aðgerðum enda sé neyðin mikil.

Mosul hefur verið hernumin frá árinu 2014. Í október síðastliðinn réðust íraskar öryggissveitir og hersveitir kúrda inn í borgina með það að markmiði að ná borginni úr klóm vígasveita íslamska ríkisins. Íbúar borgarinnar flýja átökin en talið er að íbúarnir séu núna á bilinu 600 þúsund til milljón.

Áður en borgin var hernumin var íbúafjöldinn í kringum tvær milljónir. Fólkið flýr meðal annars til Ninewa-svæðisins sem staðsett er suðaustan við Mosul en þar starfa hjálparsamtök við að setja upp búðir fyrir fólkið.

Þeir sem hafa áhuga á að leggja málefninu lið geta sent smsið KONUR í símanúmerið 1900 og þar með gefið 1900 krónur til styrktar verkefninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×