Erlent

Warren til í slaginn með Clinton

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Elizabeth Warren öldungadeildarþingmaður.
Elizabeth Warren öldungadeildarþingmaður. Nordicphotos/AFP
Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins, segist reiðubúin til að bjóða sig fram með Hillary Clinton sem varaforsetaefni flokksins.

„Ég er tilbúin til að stökkva inn í þessa baráttu og tryggja að Hillary Clinton verði næsti forseti Bandaríkjanna og sjá til þess að Donald Trump komist aldrei nálægt Hvíta húsinu,“ sagði hún í viðtali við dagblaðið Boston Globe.

Ljóst er orðið að Hillary Clinton verður forsetaefni flokksins. Bernie Sanders ætlar að berjast áfram fram að landsþingi flokksins í júlí, en heitir engu að síður því að berjast með Clinton gegn Trump.

Clinton er nú byrjuð að þreifa fyrir sér um varaforsetaefni. Einhverjar vangaveltur hafa verið um að hún muni bjóða Sanders stöðuna, en ekkert áþreifanlegt hefur komið út úr því.

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. júní 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×