Innlent

Ólafur Ragnar árið 2012 um framboð 2016: „Nei, nei, nei, nei“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson
Ólafur Ragnar Grímsson Vísir/valli
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, var spurður að því í kosningasjónvarpi RÚV hvort hann ætlaði aftur fram árið 2016 ef sama yrði uppi á teningnum að hans mati þá og var árið 2012, það er óvissa. Ólafur Ragnar svaraði „nei, nei, nei, nei.“

Lára Hanna Einarsdóttir hefur klippt saman myndband og sett á Youtube undir yfirskriftinni „Gullkorn Ólafs Ragnars.“ Myndbandið má sjá hér að neðan og er umræðan um óvissuna gegnum gangandi en á mínútu 1:20 spyr Margrét Marteinsdóttir, þáverandi fréttamaður RÚV, Ólaf Ragnar beint:

„Þannig að ef það er ennþá svona mikil óvissa að þá með sömu rökum þá býður þú þig aftur fram eða hvað?“

Forsetinn svarar:

„Nei, nei, nei, nei.“

Skömmu síðar segir Ólafur Ragnar síðan:

„Ég hef sagt það mörgum sinnum í aðdraganda þessara kosninga að þetta er mitt síðasta kjörtímabil.“

Þessi orð hans eru hjómið eitt eins og staðan er í dag þar sem Ólafur Ragnar hefur nú enn á ný gefið kost á sér sem forseti Íslands. Gerir hann það einmitt í ljósi þess að hann telur óvissutíma framundan í þjóðfélaginu nú eins og árið 2012.

Það má segja að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem Ólafur þverneitar fyrir eitthvað sem síðar kemur í ljós að stenst kannski ekki alveg.

Í síðasta mánuði fullyrti forsetinn nefnilega í viðtali við CNN að hvorki hann né Dorrit hefðu tengsl við aflandsfélög.

Á konan þín aflandsreikninga? Er eitthvað sem mun koma fram um þig og fjölskyldu þína? spurði Christiane Amanpour forsetann. „Nei, nei, nei, nei. Það verður ekki þannig,“ var svar forsetans við spurningunni.

Síðan hefur komið í ljós að Dorrit Moussaieff tengist fimm bankareikningum í Sviss í gegnum fjölskyldu sína og á hlut í að minnsta kosti tveim aflandsfélögum. Ólafur Ragnar segist enga vitneskju hafa haft um félögin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×