Lífið

Velti mér ekki upp úr vandamálum

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
"Mig grunaði ekki, þegar ég tók við starfinu 2014 hversu dýnamískt sprotaumhverfið á íslandi er í raun og veru," segir Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups.
"Mig grunaði ekki, þegar ég tók við starfinu 2014 hversu dýnamískt sprotaumhverfið á íslandi er í raun og veru," segir Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups. Mynd/stefán
Salóme Guðmundsdóttir þrífst best hlaðin verkefnum. Hún tekur hverri áskorun fagnandi og hefur óbilandi trú á eigin getu,  mistök séu til þess að læra af þeim. Hún  er framkvæmdastjóri Icelandic Startups og milli þess sem hún hjálpar sprotafyrirtækjum að koma undir sig fótunum er hún á kafi í líkamsrækt og að ferðast um heiminn.

„Mér var kennt að allt væri hægt ef viljinn væri fyrir hendi og því hef ég alltaf haft óbilandi trú á eigin getu. Ég er afskaplega þakklát foreldrum mínum fyrir það veganesti sem þau gáfu mér“ segir Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startup.



„Þau kenndu mér að fagna áskorunum, læra af mistökum og hugsa í lausnum frekar en að velta mér upp úr vandamálum. Stundum er ég kannski full bjartsýn en ég er stolt af þeim árangri sem ég hef náð og þeim stað sem ég er á í dag,“ segir Salóme og bætir við að henni líði sjaldnast betur en þegar mikið er að gera. Hún sé afar skipulögð í vinnunni en leyfi sér létt kæruleysi að vinnudegi loknum.

„Það þarf varla annað en að nefna töflur, post-it miða, liti og yfirstrikunarpenna til að ná athygli minni,“ segir hún sposk. „Mér líður best þegar ég hef góða yfirsýn yfir hlutina í vinnunni, en þegar kemur að mínu persónulega lífi get ég alveg verið svolítið kærulaus, tekið  skyndiákvarðanir og prófað nýja hluti.“

„það er einstakt tækifæri að fá að starfa svona náið með frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum og kynnast þeirra helstu áskorunum, fagna með þeim sigrum, stórum sem smáum."
En hvað gerirðu í vinnunni?

„Hlutverk Icelandic Startups er fyrst og fremst að hraða ferlinu frá því að hugmynd kviknar þar til að vara er komin á markað. Því til viðbótar gegnum við mikilvægu hlutverki sem rödd íslensku sprotasenunnar og sem tengiliður á milli frumkvöðla, sérfræðinga, fjárfesta og leiðandi sprotasamfélaga erlendis. Við erum stærsti einkarekni stuðningsaðili frumkvöðla og sprotafyrirtækja á Íslandi.

Við erum rekin í almannaþágu og tökum ekki hlut í þeim fyrirtækjum sem nýta þjónustu okkar. Stærstu hluthafar Icelandic Startups eru Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Nýherji. Icelandic Startups er eins konar regnhlíf yfir okkar helstu verkefni; Gulleggið - frumkvöðlakeppni, viðskiptahraðlana, fjölda opinna viðburða á borð við Nýsköpunarhádegi, fyrirlestra, ráðstefnur, ráðgjöf, sendiferðir með sprota erlendis og margt fleira.“

Vill gera betur á hverjum degi

Salóme tók við framkvæmdastjórn Icelandic Startups fyrir tveimur árum eftir að hafa starfað við Opna háskólann í HR í nokkur ár og gegnt þar forstöðu. Salóme er einnig virk í félagsskap LeiðtogaAuðar og Exempla sem hún segir veita ómetanlegan innblástur í krefjandi starfi sem og styrkja tengslanetið. Þegar Salóme tók við stjórnartaumum Iceland Startups hafði nýlega orðið sameining á Klak og innovit og undir stjórn hennar hefur starfsemin vaxið hratt. Starfsmönnum hefur fjölgað um helming á síðustu tveimur árum og verkefnum jafnframt fjölgað.

„það er einstakt tækifæri að fá að starfa svona náið með frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum og kynnast þeirra helstu áskorunum, fagna með þeim sigrum, stórum sem smáum. Mig grunaði ekki, þegar ég tók við starfinu 2014 hversu dýnamískt sprotaumhverfið á Íslandi er í raun og veru. Iceland startups hefur frá upphafi verið sterkt í grasrótinni en að undanförnu höfum við stigið af meiri krafti inn í það hlutverk að þjóna sprotafyrirtækjum sem eru komin vel á veg með þróun á sinni vöru. Við höfum því unnið markvisst að því að efla alþjóðleg tengsl okkar. Það hefur varla liðið sá dagur að ég hafi ekki lært eitthvað nýtt. Að fá tækifæri til að miðla áfram þekkingu og hafa áhrif á velgengni annarra hvetur mig til að gera betur á hverjum degi.“

Salóme ásamt kærastanum, Ársæli P. Óskarssyni.Mynd/Salóme Guðmundsdóttir
Galdrarnir gerast þegar við látum vaða

Salóme segir auðvelt að stofna fyrirtæki á Íslandi og að stuðningur á fyrstu stigum sé aðgengilegur. Hún hvetur fólk til þess að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Tækifærin liggi víða, ekki síst í tækni- og hugverkageiranum.

„Það eru eflaust margir sem hafa upplifað það að ganga lengi með hugmynd í kollinum og svo einn daginn er einhver annar búinn að framkvæma hana. Ég hvet fólk því til að láta vaða. Galdrarnir gerast þegar við byrjum að tala um hugmyndina og fá endurgjöf á hana. Við höfum séð mikinn vöxt nýrra fyrirtækja í tækni- og hugverkagreinum hér á landi. Við erum til dæmis leiðandi á heimsvísu þegar kemur að leikjaiðnaði og þróun sýndarveruleika. Það er óhætt að segja að CCP hafi leitt þá þróun, en fast á hæla þeirra fylgja fyrirtæki á borð við Plain Vanilla og Sólfar VR. Ýmis FinTech fyrirtæki hafa jafnframt verið að ryðja sér rúms, þar á meðal Meniga sem hefur vaxið mjög hratt á örfáum árum og Kass sem er einfalt millifærslu forrit fyrir snjallsíma. Einnig má sjá verulega góðan árangur ýmissa heilbrigðis- og líftæknifyrirtækja á borð við Orf líftækni og Nox Medical. Fyrirtæki sem byggja á hugtakinu Internet of Things hafa einnig verið áberandi, þ.á.m. Controlant og Datadrive.“

Laugardagsbröns með vinkonuhópnum.
Blómstraði í HR

Salóme býr í Hafnarfirði en ólst upp í Hlíðunum í Reykjavík, í hópi fimm systkina. Hún segir oft hafa verið fjörugt á æskuheimilinu og náið samband sé á milli systkinanna. Hún hóf skólagönguna fimm ára í Ísaksskóla og sá sjálfa sig fyrir sér sem fatahönnuð eða arkitekt. Hún skráði sig þó í viðskiptafræði við HR og segir það hafa verið bestu ákvörðun lífs síns.

„Í HR kynntist ég mörgum af mínum bestu vinum í dag, tók virkan þátt í félagsstörfum og fékk tækifæri til að stunda skiptinám við einn af virtustu viðskiptaháskólum heims, ESADE í Barcelona.  Ég hugsa að ég hafi alltaf verið frekar skapandi sem barn. Mamma var dugleg að ýta undir það hjá okkur systrum og skólarnir sömuleiðis. En eftir að hafa kynnst viðskiptum og hagfræði í Verzló fékk ég áhuga á því að skoða einhvers konar samspil af viðskiptum og hönnun sem framtíðarstarf.“

Líkamsrækt í Blue John Canyon í Utah sumarið 2015.
Áttu þér einhver áhugamál, fyrir utan vinnuna?

 „Mér þykir alveg æðislega gaman að ferðast, sjá og upplifa nýja hluti og kynnast nýjum menningarheimum,“ segir Salóme.  „Starfs míns vegna hef ég fengið tækifæri til að ferðast mikið síðustu árin og til staða sem ég myndi líklega annars ekki heimsækja eins og Rússlands og Póllands. Ítalía er í miklu uppáhaldi. Það er staðurinn sem ég finn sjálfa mig á þegar ég loka augunum og hugsa um sól og sjó. Framundan er svo Frakklandsreisa en þangað förum við til að styðja karlalandsliðið á EM og njóta þess sem Frakkland og Lúxemborg hafa upp á að bjóða,í faðmi tengdafjölskyldunnar." 

Á indíánaslóðum í nágrenni Zion þjóðgarðsins í Utah, sumarið 2015.
"Síðustu 10 – 15 ár hef ég verið á fullu í líkamsrækt, ég fæ fljótt leið ef ég festist í ákveðnu fari svo mér finnst gaman að breyta til. Eftir að verkefnin urðu umfangsmeiri í vinnunni nýti ég frítímann til að rækta líkama og sál. Ég hef líka mjög gaman af því að prófa mig áfram í eldhúsinu. Kærastinn minn er vegan svo við gerum tilraunir með ýmsa rétti, krydd og jurtir. Mér finnst langskemmtilegast að elda í félagsskap með öðrum. Besta vítamínsprautan er þó  samverustundir með fjölskyldu og vinum. Ég held að okkur hætti til að vanrækja það allt of oft, sérstaklega þegar mikið verður að gera í vinnunni. Þá er gott að staldra við og minna sig á hver forgangsröðunin er.“

Salóme í sumrfríi í Los Angeles haustið 2015. Hún segist haldin útþrá sem hún sinni sem oftast.
Hvað er framundan hjá þér?

„Ég hef alltaf stefnt á framhaldsnám en á starfsferli mínum fengið tækifæri til framgangs í starfi sem höfðu á hverjum tíma meira vægi en að flýta mér í frekara nám. Það kemur þó að því fyrr en síðar og þá mun ég að nýju horfa út fyrir landsteinana. Það hefur alltaf blundað í mér ákveðin útþrá. Ég trúi því einlæglega að aukin alþjóðleg samskipti skili okkur auknum verðmætum, hvernig sem á það er litið. Íslendingar sem halda t.d. út í nám koma yfirleitt alltaf aftur “heim” reynslunni ríkari sem skilar sér margfalt út í íslenskt samfélag. Þess vegna er svo mikilvægt að við styðjum ungt fólk til náms á erlendri grundu og reynum að gera þeim það eins auðvelt og kostur er.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×