Viðskipti erlent

Tap Blackberry þrefaldast

Sæunn Gísladóttir skrifar
Blackberry er með innan við eitt prósent hludeild á snjallsímamarkaði.
Blackberry er með innan við eitt prósent hludeild á snjallsímamarkaði. Vísir/EPA
Tap kanadíska símaframleiðandans Blackberry þrefaldaðist milli ársfjórðunga og nam 670 milljónum dollara, jafnvirði rúmlega 80 milljarða íslenskra króna, á síðasta ársfjórðungi. Í frétt BBC um málið segir að tapið megi rekja til kostnaðar vegna endurskipulagningar og afskrifta.

Án einskiptiskostnaðar hagnaðist fyrirtækið um fjórtán milljónir dollara, jafnvirði 1,7 milljarða íslenskra króna.

Forsvarsmenn fyrirtækisins segja að tapið á árinu verði þó minna en spár höfðu gert ráð fyrir. John Chen, forstjóri Blackberry, segir að meiri hagkvæmni og mikill vöxtur í hugbúnaði og þjónustu muni draga úr tapi. Tapið mun vera í kringum fimmtán sent á hlut, samanborið við spár um 33 sent á hlut.

Blackberry mun færa sig frá snjallsímamarkaðnum þar sem hlutdeild þess nemur tæpu prósenti af heimsmarkaði og í átt að hugbúnaði sem fyrirtæki og ríkisstjórnir styðjast við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×