Skoðun

Er lokamarkið í augsýn?

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir skrifar
Nú á tímum er til siðs að tala líkingamál knattspyrnunnar, eftir hina frækilegu Frakklandsferð landsliðsins í fótbolta. Því er við hæfi að spyrja sig hvort við sem höfum starfað í nefnd um endurskoðun almannatrygginga séum nú að sjá lokamarkið nálgast.

Frumvarp um breytingar á lögum um almannatryggingar er komið inn á vef velferðarráðuneytisins. Það er afrakstur mikillar vinnu árum saman og grundvallarbreytingar á kerfinu. Þær breytingar sem lagðar eru til er þokkaleg sátt um, en þær snerta fyrst og fremst kjör eldri borgara. Ekki eru breytingar gerðar hvað varðar öryrkja, en lagt er til að komið verði á tilraunaverkefni um starfsgetumat sem komi í stað örorkumats. Ég ætla ekki í þessari grein að fara nánar út í það mál.

Það sem snertir eldri borgara er einföldun kerfisins, sveigjanleiki í lífeyristöku, hækkun á ellilífeyrisaldri á 24 árum og samræming á skerðingarprósentu allra tekna þegar reikna á út réttindi fólks í almannatryggingum. Sameina á grunnlífeyri, tekjutryggingu og framfærsluuppbót í einn ellilífeyri. Framfærsluuppbótin sem hefur verið með 100% skerðingu gagnvart öllum öðrum tekjum verður færð í flokk ellilífeyris þar sem skerðingin verður 45%. Það er stór ávinningur að ná því að þessi uppbót á lífeyri renni nú inn í almennan ellilífeyri.

Jafnframt verður meiri sveigjanleiki í kerfinu sem Landssamband eldri borgara hefur lagt ríka áherslu á. Hægt verður að byrja að taka ellilífeyri 65 ára, en einnig að geyma það til 80 ára. En jafnframt verður líka hægt á þessu 15 ára tímabili að taka ½ lífeyri hjá bæði lífeyrissjóðum og almannatryggingum og geyma hinn helminginn til allt að 80 ára aldurs, og hækkar þá geymdi lífeyririnn samkvæmt tryggingarfræðilegu mati þangað til viðkomandi tekur fullan lífeyri. Þetta ákvæði þarf þó undirbúningstíma og mun ekki taka gildi fyrr en ári seinna en aðrar breytingar sem lagðar eru til.

Eftir er að breyta lögum um lífeyrissjóði til samræmis við almannatryggingarnar. Taki fólk hálfan lífeyri getur það haldið áfram að vinna án skerðingar vegna vinnulauna. Það ætti því að hvetja fólk til atvinnuþátttöku eftir getu og vilja hvers og eins. Með hækkandi meðalaldri þjóðarinnar hefur verið krafa um meiri sveigjanleika til bæði lífeyristöku og lengri starfsævi. Þá er einnig verið með þessum breytingum að hækka lífeyristökualdur úr 67 árum í 70 ár á 24 árum. Það byrjar á árinu 2018 og hækkar um tvo mánuði á ári í 12 ár og síðan um einn mánuð á ári næstu 12 ár.

Bætir verulega hag eldri kvenna

Kostnaður ríkissjóðs af þessu frumvarpi verði það að lögum fer að miklum hluta til að bæta hag eldri kvenna, sem hafa verið í meirihluta þeirra sem hafa haft framfærsluuppbótina og lítið í lífeyrissjóði. Þetta eru oftast konur sem voru heimavinnandi fram eftir aldri, sinntu heimili og mörgum börnum, en fóru svo að vinna seinna utan heimilis og oft í láglaunastörfum. Jafnframt bætir þetta hag þeirra sem eiga sparifé þar sem skerðingarprósenta vegna vaxtatekna fer einnig í 45%, en frá Hruninu hefur það verið föst fjárhæð eða rúmar 98.000 kr á ári. Ég hvet alla til að kynna sér frumvarpið inn á vef velferðarráðuneytis. Hægt er að slá inn á netið: vel.is og þá kemur vefurinn upp og þar er kynning á efninu. Athugasemdir þurfa að berast fyrir 31. júlí. Vonandi sjáum við frumvarpið verða að lögum fyrir áformaðar þingkosningar í haust.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×