Erlent

Milljónum manna sagt að forða sér

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Í bænum Delray Beach voru þessir menn að byrgja glugga og dyr veitingastaðar sem þeir reka þar.
Í bænum Delray Beach voru þessir menn að byrgja glugga og dyr veitingastaðar sem þeir reka þar. Nordicphotos/AFP
Íbúar á austurströnd Flórída, Georgíu og Suður-Karólínu í Bandaríkjunum voru í gær að búa sig undir hrikalegar hamfarir þegar fellibylurinn Matthías kemur þangað.

Stjórnvöld í þessum þremur ríkjum Bandaríkjanna sögðu meira en tveimur milljónum manna að forða sér frá heimilum sínum.

„Farið burt,“ sagði Derrick Henry, borgarstjóri í Daytona Beach á Flórída. „Ekki hafa áhyggjur af eigum ykkar fyrr en seinna. Hugsið um líf ykkar núna. Þið eigið aðeins eitt líf.“

Rick Scott, ríkisstjóri í Flórída, tók enn dýpra í árinni: „Þetta er alvarlegt,“ sagði hann. „Þessi stormur mun drepa ykkur. Tíminn er að renna út.“

Víða mátti sjá fólk byrgja glugga og dyr bæði á heimilum og fyrirtækjum. Fjöldi fólks ákvað að fara burt til ættingja eða annað þar sem hægt væri að fá húsaskjól á meðan ósköpin gengju yfir.

Fellibylurinn hefur þegar valdið miklum skaða á Haítí, Kúbu og Bahamaeyjum og var búist við honum að ströndum Flórída seint í gærkvöld eða nótt.

Á Haítí kostaði hann meira en hundrað manns lífið og eyðilagði tugi þúsunda heimila.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×