Erlent

Sænskur ráðherra segir af sér vegna ölvunaraksturs

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Aida Hadzialic er fremst til vinstri á þessari mynd, klædd rauðum kjól.
Aida Hadzialic er fremst til vinstri á þessari mynd, klædd rauðum kjól. vísir/epa
Aida Hadzialic annar menntamálaráðherra Svíþjóðar sagði í dag af sér embætti eftir að hún var tekin fyrir ölvunarakstur á fimmtudagskvöld.

Hadzialic hélt blaðamannafund nú í morgun þar sem hún sagði að hún hefði verið stöðvuð af lögreglunni er hún var þá á leiðinni af tónleikum í Kaupmannahöfn og heim til sín í Malmö.

Hadzialic segist hafa fengið sér tvö vínglös snemma kvölds en hún var stöðvuð af lögreglunni í Malmö. Í blóði hennar mældust 0,2 prómill af alkóhóli. Hún er 29 ára gömul og er í ríkisstjórn fyrir Jafnaðarmannaflokkinn en jafnaðarmenn og græningjar eru saman í minnihlutastjórn í Svíþjóð.

Í gærkvöldi sagði ráðherrann svo Stefan Lofven forsætisráðherra frá því sem hún segir vera stærstu mistök lífs hennar og í kjölfarið hafi hún ákveðið að taka ábyrgð á gjörðum sínum og segja af sér sem ráðherra.

Hadzialic er fædd í Bosníu-Hersegóvínu og kom til Svíþjóðar þegar hún var fimm ára. Árið 2014 varð hún fyrsti músliminn í Svíþjóð til að gegna ráðherraembætti þegar hún tók sæti í ríkisstjórn Lofven.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×