Skoðun

Búvörusamningum verði vísað frá

Þingflokkur Bjartrar framtíðar skrifar
Björt framtíð telur mjög mikilvægt að sátt ríki um búvörusamninga og að þeir séu unnir í samráði við alla hagsmunahópa, ekki síst neytendur. Við viljum hafa öflugan landbúnað á Íslandi en gerum jafnframt þá kröfu að það fjármagn sem sett er í landbúnaðarkerfið nýtist sem best. Nýir búvörusamningar eru allt of umdeildir og við leggjum einfaldlega til að málinu verði vísað frá enda fyrir því mörg rök. Hér má sjá nokkur þeirra:

Algjör einstefna ríkti um gerð samninganna þar sem fulltrúar neytenda, launþega og annarra hagsmunaaðila áttu enga aðkomu að þeim. Slík aðkoma er forsenda fyrir því að sátt ríki um svo stórt mál sem varðar ekki einungis hagsmuni bænda.

Áframhaldandi verðsamráð mjólkurafurðastöðva, heimildir til samráðs, samvinnu og verkaskiptingar milli stærstu aðila á markaði er einnig í andstöðu við samkeppnislög og kemur í veg fyrir heilbrigt samkeppnisumhverfi. Um það hefur Samkeppniseftirlitið nýverið gefið álit í málefnum Mjólkursamsölunnar.

Hlutverk og ábyrgð verð­lagningar­nefndar er ekki nógu skýrt. Fyrirkomulagið er ekki til þess fallið að skapa hvata fyrir framleiðendur til að auka samkeppnishæfni, framleiðni og lækka vöruverð. Ekki er gert ráð fyrir fulltrúum launþegahreyfinga eða neytenda í þeirri nefnd eins og verið hefur undanfarna áratugi heldur skipi ráðherra þrjá fulltrúa í nefndina. Einhliða ákvörðun ráðherraskipaðrar nefndar um svo stór málefni er óásættanleg.

Stuðningur ætti að vera í meira mæli tengdur sjálfbærri landnýtingu. Þá þarf að bæta verulega í stuðning við lífræna ræktun og tengja opinbera fjárstyrki búvörusamninga þeim skilyrðum að í hvívetna sé gætt að velferð dýra.

Björt framtíð telur að fyrirliggjandi frumvarp til breytinga á búvörulögum og búvörusamningar séu svo langt frá því að geta talist ásættanlegir að það sé óforsvaranleg eyðsla á tíma Alþingis að ræða einstaka breytingatillögur. Eðlilegast sé að vísa málinu frá í heild og vinna það upp á nýtt. Í þeirri vinnu kæmu allir hagsmuna­aðilar að borðinu og tryggt yrði að nýir samningar þjóni jafnt hagsmunum bænda sem neytenda.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×