Viðskipti innlent

Helga Valfells opnaði Nasdaq kauphöllina í New York

Sæunn Gísladóttir skrifar
Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins opnaði Nasdaq kauphöllina í New York í dag.
Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins opnaði Nasdaq kauphöllina í New York í dag. Mynd/Icelandic Startups
Leiðtogar norræna sprotasamfélagsins söfnuðust saman í New York í dag til að opna Nasdaq kauphöllina með bjölluhringingu klukkan 13:30 að íslenskum tíma.

Á staðnum er Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, ásamt öðrum norrænum frumkvöðlasetrum og íslensku sprotafyrirtækjunum Sling og Watchbox. Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins veitti ræðu við tilefnið, segir í tilkynningu.

Markmið ferðarinnar er að kynna norræna sprotasamfélagið betur á austurströnd Bandaríkjanna ásamt því að veita sprotafyrirtækjum sem með eru í för tækifæri til að kynna sig fyrir bandarískum fjárfestum og fjölmiðlum. Tölur benda til að hátt í tíu þúsund sprotafyrirtæki séu virk í New York um þessar mundir sem gerir borgina afar vænlega til tengslamyndunar. 

 

Helga Valfells veitti ræðu við tilefnið.Mynd/Icelandic Startups
Þetta er í þriðja sinn sem hópurinn heldur til New York í þessum tilgangi. Icelandic Startups hefur unnið að því síðustu ár að byggja upp norrænt samstarf í þeim tilgangi að auðvelda aðgengi íslenskra sprotafyrirtækja að erlendum mörkuðum og auka áhuga alþjóðlegra fjárfesta og fjölmiðla á starfsemi íslenska sprotasamfélagsins.

Norræna sprota- og tæknisenan hefur vaxið hratt undanfarin ár og engin merki um að hægjast sé á þeirri þróun. Þrátt fyrir að íbúafjöldi á Norðurlöndunum telji einungis 1% af fólksfjölda heimsins þá áttu þau um 10% af heildarveltu síðasta áratugs. Hin öfluga norræna sprotasena hefur getið af sér fyrirtæki á borð við Klarna, Unity, Spotify og Supercell.  Uppgefinn hagnaður af sölu á hlutum í norrænum sprotafyrirtækjum, var samkvæmt The Nordic Web, 1,27 milljarðar Bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Myllumerki viðburðarins #NordicMade er ætlað að sameina allar fréttir af norræna sprotaumhverfinu á einn stað.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×