Innlent

Björn Steinbekk rýfur þögnina eftir þrjá mánuði: „Ætlaði ekki að vera gaurinn sem klúðraði þessu“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Björn segir að skilyrði fyrir því að allar endurgreiðslukröfur verði greiddar sé að honum takist að sækja bætur til þeirra sem sviku hann.
Björn segir að skilyrði fyrir því að allar endurgreiðslukröfur verði greiddar sé að honum takist að sækja bætur til þeirra sem sviku hann. visir/samsett
Björn Steinbekk segir að hann hafi endurgreitt 10 milljónir vegna miðasölu sem hann stóð fyrir á landsleik Íslands og Frakklands á Evrópumótinu í knattspyrnu í sumar.  Hann segist hafa verið svikinn um miðana á leikinn en hafi enn ekki komist að því hver hafi staðið að verki. Björn segir að skilyrði fyrir því að allar endurgreiðslukröfur verði greiddar sé að honum takist að sækja bætur til þeirra sem sviku hann.

Þetta kom fram í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun þar sem Björn Steinbekk var gestur þáttarins.

Björn hefur lítið viljað tjá sig við fjölmiðla vegna málsins frá því í sumar en fréttastofa hefur ítrekað reynt að ná sambandi við hann vegna málsins frá því að það kom upp. Tugir Íslendinga sem keyptu miða á leikinn sátu uppi með sárt ennið í grenjandi rigningu í París fyrir utan Stade de France þar sem Birni hafði ekki tekist að útvega alla þá miða sem hann hafði lofað.

Mikið gekk á þegar reynt var að afhenda miðana fyrir utan völlinn fyrir leik Íslands og Frakklands
Segist hafa gert margþætt mistök

„Ég seldi 458 á leikinn. Ég afhendi 389 miða fyrir utan völlinn. Eftir sitja rúmlega 70 miðar sem ég var ekki með. Hluti af því má skýra með að bróðir minn var rændur,“ segir Björn sem segist hafa gert margþætt mistök í málinu. Vandræðin hafi hafist þegar hann áttaði sig á því á laugardeginum fyrir leik að hann myndi ekki fá þá miða sem honum hafi verið lofað af þeim sem hann keypti miðanna af í upphafi.

„Þá hefði ég átt að láta fólk vita. Ég hefði átt að senda út tölvupóst og segja að það væru einhver vandræði í gangi og mér þykir þetta leiðinlegt og ætla að endurgreiða miðana. Ég tek hins vegar þá ákvörðun að útvega miða frá öðrum aðila, eftir á hyggja ekki góð ákvörðun,“ segir Björn. „Kannski spilaði egóið inn í, sem sagði mér að ég myndi redda þessu því ég ætlaði ekki að vera gaurinn sem klúðraði þessu.“

Sjá einnig: Dregin á asnaeyrum í París

Mikið gekk á þegar Björn reyndi að afhenda miðana fyrir utan leikvanginn en misvísandi skilaboð bárust um hvar ætti að sækja þá. Voru þeir miðar sem Björn var með afhentir skömmu fyrir leik á veitingastað fyrir völlinn. Margrét Katrín Guðnadóttir var ein þeirra sem fékk ekki miða fyrir sig og dætur sínar. Þau áttu að fá miðana afhenta á milli klukkan 15 og 19 en eftir mikinn eltingarleik og örvæntingu, þar sem tár féllu og lögregla þurfti að skarast í leikinn hélt hópurinn aftur upp á hótel súr í bragði, án miða.

Björn segir að það upprunalega hafi hann ætlað að afhenda miðana við hótel sitt í tæka tíð fyrir leikinn en vegna þess að hann hafi þurft að redda nýjum miðum sjálfum, sem hann fékk í hendurnar í hádeginu fyrir leikinn, hafi hann ákveðið að færa afhendinguna að veitingastaðnum í grennd við völlinn. Það hafi hins vegar verið mistök, þar hafi myndast aðstæður sem hann hafi hreinlega ekki ráðið við en lögregla þurfti að lokum að skarast í leikinn.

Einn af bestu vinum Björns hafði milligöngu um miðasöluna til Björns en getur ekki gefið neinar skýringar í dag

Í sumar sagði Björn að miðasölustjóri UEFA vegna mótsins hafi svikið sig um miðana og framvísaði hann gögnum sem áttu að sýna fram á að UEFA hafði lofað honum miðum. UEFA kannaðist hins vegar ekki við þann aðila sem Björn var í sambandi við. Nú segist Björn ekki vita hver hafi svikið hann um miðanna og síðustu þrír mánuðir hafi farið í að komast að því. Upphaflega hafi þó vinur hans í Bandaríkjunum haft samband og boðið honum að selja miða á EM.

„Einn af mínum bestu vinum í Bandaríkjunum sem hefur unnið við þessi mál býður mér að selja miða fyrir EM, fyrirtækjamiða. Við skoðuðum það en hættum við. Ævintýrið fer svo aftur af stað og þá er aftur haft samband við mig af sömu aðilum,“ segir Björn og bætir við að þeir hafi útvegað honum 120 miða á leik Íslands og Englands í Nice og þar hafi engin vandræði komið upp með miðana. Hann hafi þó engar skýringar fengið á því af hverju hann hafi verið svikinn um miðanna fyrir Frakklandsleikinn.

„Það er það sem við höfum verið að vinna í síðustu þrjá mánuði, að komast að hverjir þetta eru og ná peningunum til baka frá þeim, til dæmis þessum vini mínum.“

Sjá einnig:UEFA þekkir ekki milligöngumann Björns

Í gær var greint frá því að Kristján Atli Baldursson  eigandi netmidi.is, hafi ekki enn fengið endurgreiddar þær 5,2 milljónir króna sem hann telur Björn skulda sér vegna málsins. Kristján Atli keypti um 100 miða af Birni sem ekki allir skiluðu sér. Hann sagðist ætla með málið fyrir dómstóla. Björn segir að hann hafi tekið ákvörðun um endurgreiða fyrst þeim eintaklingum sem keypt hafi miða af sér.

„Mér fannst tilhlýðilegra að láta þá ganga fyrir sem höfðu keypt miða af okkur beint en reyna svo að vinna með þeim sem voru að selja miða frá mér í endursölu í þó nokkru magni í þeim hugsunarhætti að hagnast á því að selja miðana.“

Ráðavilltir og miðalausir Íslendingar við Stade de France í sumar.Mynd/Íris Björk Hafsteinsdóttir
Segir þetta stærstu mistök lífs síns

Björn segir að honum hafi borist 335 endurgreiðslukröfur þrátt fyrir að afhent 389 af þeim 458 miðum sem hann seldi. Hann segist sitja uppi með tvöfalt tap, enda hafi hann einnig þurft að greiða sjálfur fyrir þá miða sem hann hafi útvegað á leikinn eftir að hafa áttað sig á því að upprunalegu miðarnir sem hann seldi myndi ekki berast. Eftir standi um sex milljónir en það sé háð því hvort að honum takist að sækja bætur til þeirra sem sviku hann um miðana hvort takist að endurgreiða allar kröfurnar.

„Alveg eins og ég er búinn að reyna að gær og síðasta mánuði höldum við áfram að sækja á það folk sem við vorum í samskiptum við um þessa miða, um þær bætur sem mér var lofað í eftirmálunum. Það er skilyrði málsins að við náum peningunum til baka.“

Sjá einnig:Miðafár, grátandi menn og misheppnuð flug

Björn gengst við því að hann beri ábyrgð á þessu öllu saman og að honum þykir leitt að hafa klúðrað deginum fyrir fjölmarga Íslendinga sem gert hefðu sér ferð til Frakklands. Það sé eitthvað sem hann muni sitja uppi með til æviloka. Hann muni reyna að bæta fyrir það með því að klára að endurgreiða þeim sem hafa farið fram á það. Hann segir þó alveg ljóst að hann hafi ekki farið út gagngert til þess að svíkja fólk enda hefði hann þá aldrei mætt á Stade de France fyrir leik til þess að hitta það fólk sem keypt hafði af honum miða.

„Ég veit sjálfur hversu ofboðslega mikil mistök þetta eru. Þetta eru stærstu mistök sem ég hef nokkurn tímann gert á minni ævi. Ég lifi með því á hverjum degi. Mín líðan, andlega og líkamlega, skiptir ekki höfuðmáli. Það skiptir máli að ég fór ekki gagngert til þess að svíkja fólk. Það skiptir mig máli að sem flestir komist frá þessu máli þannig að það komi eitthvað til baka frá mér.“


Tengdar fréttir

Hundruð svikin um miða

Svikinn Frakklandsfari horði upp á unga menn á aldrinum 20 til 25 ára hágrátandi fyrir utan völlinn í París á meðan þjóðsöngurinn var leikinn fyrir innan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×